Fótbolti

Segir að Spánverjar hafi ekki reynt að tapa

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sergio Busquets sagði að Spánverjar hafi ekki reynt að velja sér auðveldari leik í sextán liða úrslitum HM í Katar.
Sergio Busquets sagði að Spánverjar hafi ekki reynt að velja sér auðveldari leik í sextán liða úrslitum HM í Katar. getty/Eric Verhoeven

Sergio Busquests, fyrirliði spænska fótboltalandsliðsins, segir ekkert til í því að Spánverjar hafi reynt að tapa fyrir Japönum til að fá auðveldari leiki í útsláttarkeppninni á HM í Katar.

Spánn tapaði fyrir Japan, 1-2, í lokaumferð riðlakeppninnar á HM í gær. Fyrir vikið enduðu Spánverjar í 2. sæti E-riðils. Það gæti samt komið sér vel því spænska liðið mætir því marokkóska í sextán liða úrslitum í stað þess króatíska.

Margir veltu því fyrir sér Spánverjar hefðu viljandi kastað sigrinum gegn Japönum frá sér til að komast hjá því að mæta Króötum í sextán liða úrslitum og hugsanlega Brasilíumönnum í átta liða úrslitunum. Busquests segir að það hafi ekki verið ætlun þeirra spænsku.

„Við virtumst vera með stjórn á leiknum því þeir reyndu bara að beita skyndisóknum. Við gerðum mistök og síðan skoraði Japan gott mark, héldu áfram að sækja og skoruðu annað,“ sagði Busquests en Spánn var 1-0 yfir í hálfleik með marki Álvaros Morata.

„Við vildum klárlega ekki að þetta myndi gerast því við reyndum að vinna. Núna þurfum við að mæta Marokkó sem verður líka mjög erfiður leikur.“

Leikur Spánar og Marokkó fer fram á þriðjudaginn, 6. desember. Spánverjar hafa ekki komist í átta liða úrslit HM síðan þeir urðu heimsmeistarar 2010.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×