Fótbolti

Frakkar skiptu yfir í auglýsingar og héldu að þeir hefðu gert jafntefli

Sindri Sverrisson skrifar
Antoine Griezmann hélt að hann hefði tryggt Frökkum jafntefli gegn Túnis en svo tók við óvenjuleg atburðarás sem sjónvarpsáhorfendur í Frakklandi misstu af.
Antoine Griezmann hélt að hann hefði tryggt Frökkum jafntefli gegn Túnis en svo tók við óvenjuleg atburðarás sem sjónvarpsáhorfendur í Frakklandi misstu af. Getty/Alex Caparros

Sjónvarpsáhorfendur í Frakklandi héldu eflaust að sínir menn í franska landsliðinu hefðu farið taplausir í gegnum riðlakeppnina á HM í fótbolta, vegna afglapa í útsendingu sjónvarpsstöðvarinnar TF1.

Antoine Griezmann jafnaði metin gegn Túnis í gær í 1-1 í blálok leiksins og í kjölfarið skipti TF1 yfir í auglýsingar.

Áhorfendur í Frakklandi misstu því af dramatíkinni sem fylgdi eftir mark Griezmann en dómari leiksins ákvað að ógilda markið hans vegna rangstöðu, eftir að hafa skoðað atvikið á sjónvarpsskjá.

Túnis vann þar af leiðandi leikinn 1-0 en það kom reyndar ekki að sök fyrir Frakka því þeir unnu engu að síður D-riðilinn og mæta Pólverjum í 16-liða úrslitum mótsins á sunnudaginn.

Frakkar hafa engu að síður sent inn kvörtun til FIFA vegna marksins sem Griezmann skoraði, sem þeir telja að hafi átt að standa.

TF1 sendi frá sér yfirlýsingu í gær og sagðist kenna í brjósti um þá sem ekki gátu séð atburðarásina í beinni útsendingu, en tók fram að farið hefði verið eftir hefðbundnum verkferlum í útsendingum stöðvarinnar.

Frönsku sjónvarpsstöðinni til varnar þá virðist dómari leiksins hafa flautað miðju og svo flautað leikinn af strax í kjölfarið, áður en hann ákvað loks á endanum að fara í varsjána og skoða markið hjá Griezmann betur. Það stangast á við reglurnar um hvernig VAR er notað, þar sem ekki má hefja leik að nýju áður en dómi er breytt.

Hætt er við að það sem gerðist hjá TF1 rifji upp fyrir mörgum Íslendingum þegar íslenska karlarlandsliðið í fótbolta komst í fyrsta sinn í umspil fyrir HM, haustið 2013, en skipt var yfir í auglýsingar í beinni útsendingu RÚV í stað þess að áhorfendur gætu fylgst með fagnaðarlátum sinna manna.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.