Fótbolti

Stuðnings­maður Wa­les lést í Katar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Stuðningsmaður Wales lést á föstudaginn.
Stuðningsmaður Wales lést á föstudaginn. Getty Images

Velska knattspyrnusambandið hefur staðfest að einn stuðningsmaður velska landsliðsins hafi látist í Katar þar sem heimsmeistaramótið í fótbolta fer nú fram. Ekki er talið að neitt saknæmt hafi átt sér stað.

Hinn 62 ára gamli Kevin Davies var í Katar ásamt syni sínum samkvæmt frétt enska götublaðsins Mirror. Aðrir fjölskyldumeðlimir voru heima en þau voru látin vita áður en hann var nefndur í fjölmiðlum.

Samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins, BBC, lést Davies af náttúrulegum orsökum á föstudagskvöld en hann var ekki á Ahmad Ali-vellinum þar sem Wales mátti þola 2-0 tap gegn Íran.

Velska knattspyrnusambandið hefur vottað fjölskyldunni samúð sína og mun veita henni þá aðstoð sem hún þarf.

Wales er með eitt stig að loknum tveimur leikjum í riðlakeppni HM og þarf sigur gegn Englandi í lokaumferð riðlakeppninnar til að eiga möguleika á að komast áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×