Fótbolti

Sjáðu þrumuræðu Renards sem kveikti í Sádum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Herve Renard í loftköstunum.
Herve Renard í loftköstunum. getty/Clive Brunskill

Hervé Renard, þjálfari sádí-arabíska fótboltalandsliðsins, vann heldur betur fyrir kaupinu sínu í hálfleik í leiknum gegn Argentínu á HM 2022. Sádar voru 1-0 undir í hálfleik en þrumuræða Renards kveikti heldur betur í þeim og þeir skoruðu tvö mörk í byrjun seinni hálfleiks og tryggði sér sigurinn.

Samkvæmt útreikningum Gracenote tölfræðiveitunnar var sigur Sádí-Arabíu á Argentínu sá óvæntasti í sögu HM. Í hálfleik benti samt lítið til þess að Sádar myndu fara með sigur af hólmi enda Argentínumenn með forystuna eftir mark Lionels Messi úr vítaspyrnu.

Í hálfleik hélt Renard innblásna ræðu sem kveikti svo sannarlega í hans mönnum. Renard þrumaði yfir sínum mönnum á frönsku og ensku og ræðan var svo tilfinningaþrungin að túlkurinn var líka orðinn æstur. Þrumuræðu Renards má sjá hér fyrir neðan.

Sádarnir mættu útblásnir af sjálfstrausti til leiks í seinni hálfleik eftir ræðuna mögnuðu. Saleh Al-Shehri jafnaði metin á 48. mínútu og fimm mínútum síðar kom Salem Al-Dawsari Sádí-Arabíu yfir, 1-2.

Þrátt fyrir að hafa um fjörutíu mínútur til að jafna varð Argentínu ekki kápan úr því klæðinu og Sádí-Arabía fagnaði fræknum sigri.

Gleðin inni á vellinum og í stúkunni á Lusail leikvanginum var mikil og ekki var hún minni heima fyrir. Yfirvöld í Sádí-Arabíu gáfu svo landsmönnum frí daginn eftir leikinn gegn Argentínu til að fagna sigrinum.

„Sú ákvörðun hefur verið tekin að á morgun, miðvikudag, munu allir starfsmenn fá frí frá vinnu, bæði hjá ríkinu og í einkageiranum, ásamt bæði karlkyns og kvenkyns nemendum,“ sagði í yfirlýsingu frá Mohammed bin Salman, krónprins Sádi-Arabíu.

Sádí-Arabía er á toppi C-riðils heimsmeistaramótsins með þrjú stig. Næsti leikur liðsins er gegn Póllandi klukkan 13:00 á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×