Englendingar með annan fótinn í 16-liða úrslit þrátt fyrir töpuð stig

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Enska landsliðið í knattspyrnu trónir enn á toppi B-riðils heimsmeistaramótsins þrátt fyrir töpuð stig ggn Bandaríkjamönnum.
Enska landsliðið í knattspyrnu trónir enn á toppi B-riðils heimsmeistaramótsins þrátt fyrir töpuð stig ggn Bandaríkjamönnum. Sebastian Frej/MB Media/Getty Images

England er komið með annan fótinn í 16-liða úrslit heimsmeistaramótsins í knattspyrnu eftir markalaust jafntefli gegn Bandaríkjunum í kvöld.

Fyrir leikinn var ljóst að sigur myndi skjóta Englendingum í 16-liða úrslit, en Bandaríkjamenn hefðu stolið toppsæti B-riðilsins með sigri.

Það voru Englendingarnir sem byrjuðu leikinn betur og Harry Kane var nálægt því að koma liðinu yfir snemma leiks, en vörn Bandaríkjamanna stóð vel. Eftir því sem líða fór á fyrri hálfleikinn náðu Bandaríkjamenn betri tökum á leiknum og Christian Pulisic komst næst því að skora þegar skot hans hafnaði í þversláni.

Inn vildi boltinn þó ekki og því var enn markalaust þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Síðari hálfleikur byrjaði svo á svipuðum nótum og sá fyrri endaði. Bandaríkjamenn voru hættulegri og sóttu stíft að marki Englendinga. Illa gekk þó að skapa opin marktækifæri og þar af leiðandi gekk Bandaríkjamönnum illa að skora.

Englendingar komust betur inn í leikinn og sóttu meira seinasta stundarfjórðung leiksins, en mörkin létu standa á sér og niðurstaðan því markalaust jafntefli.

Englendingar eru því enn á toppi B-riðils með fjögur stig þegar ein umferð er eftir, tveimur stigum meira en Bandaríkin sem sitja í þriðja sæti.

Englendingar mæta Walesverjum í lokaumferð riðilsins næstkomandi þriðjudag þar sem jafntefli nægir þeim til að tryggja sér sæti í 16-liða úrslitum. Bandaríkjamenn mæta hins vegar Írönum og þurfa á sigri að halda ætli þeir sér upp úr riðlinum.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.