Fótbolti

FIFA gefur sig undan pressunni: Regn­boga­litir leyfðir í stúkunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsmenn þýska landsliðsins laumuðust inn með þetta regnbogaband en geta mætt áhyggjulausir á næsta leik.
Stuðningsmenn þýska landsliðsins laumuðust inn með þetta regnbogaband en geta mætt áhyggjulausir á næsta leik. Getty/Christopher Lee

Alþjóða knattspyrnusambandið hafði bannað alla regnbogaliti í stúkunni á heimsmeistaramótinu í Katar en sambandið virðist nú vera að bakka með það rugl. FIFA hefur nú í raun viðurkennt tap í baráttu sinni gegn regnbogalitunum.

Velska knattspyrnusambandið gaf það út í gær að FIFA hafi nú svarað kvörtunum þeirra á meðferð stuðningsmanna Wales sem lentu í því að regnbogahattarnir voru teknir af þeim fyrir fyrsta leikinn. Fréttir af vandræðum stuðningsmanna að komast ekki inn á leikina af því að þeir voru ekki í réttum litum hafa sett mikinn svip á heimsmeistaramótið til þessa.

FIFA sagði í tilkynningu til velska sambandsins að regnbogahattarnir væru nú leyfðir á öllum leikjum HM í Katar sem og allur fatnaður í regnbogalitunum. Þetta á við alla leiki það sem eftir lifir keppninnar.

FIFA hefur því ákveðið að gefa eftir í þessari fáránlegu vegferð misréttis og kúgunnar í boði katarska ríkisins. Katarar hafa verið harðlega gagnrýndir fyrir afstöðu sína gagnvart samkynhneigðum og samkynja samböndum sem og fyrir mannréttindabrot og meðferð þeirra á erlendu farandverkafólki.

Wales mætir Íran í fyrsta leik dagsins á heimsmeistaramótinu og það má búast við því að hattarnir verði áberandi í stúkunni á leiknum.

Ein sem átti einn mestan þátt í að vekja athygli á fáránleika þess að banna saklausa hatta í stúkunni var Laura McAllister, fyrrverandi fyrirliði welska kvennalandsliðsins.

Hún var ein af þeim velsku stuðningsmönnum sem þurftu að afhenda hattinn sinn til að komast inn á leikinn gegn Bandaríkjunum á mánudag.

Hatturinn sem um ræðir er einkennishöfuðfat Regnbogamúrsins sem er hinsegin-stuðningshópur welska landsliðsins.

McAllister tók þessu ekki þegjandi og hljóðalaust heldur sagði frá þessu í fjölmiðlum og talaði um að sér hefði hreinlega verið ógnað með þessari framgöngu vallarstarfsfólks.

Í framhaldinu lýsti Knattspyrnusamband Wales yfir miklum vonbrigðum með þessa meðferð á stuðningsfólki sínu og sendi inn kvörtun til FIFA.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.