Innlent

Kallað út vegna sprengingar og reyks á veitinga­stað í mið­borginni

Atli Ísleifsson skrifar
Rúður á neðri hæð hússins voru mölbrotnar.
Rúður á neðri hæð hússins voru mölbrotnar. Aðsend

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og lögregla voru kölluð út eftir að tilkynnt var um sprengingu og mikinn reyk á skemmtistaðnum The Dubliner í Naustunum í miðborg Reykjavíkur upp úr klukkan tvö í nótt.

Að sögn varðstjóra hjá slökkviliði er ekki vitað nákvæmlega hverju var kastað inn en þegar slökkvilið mætti á staðinn þurfti að vinna að reykræstingu. Ekki var um neinn eld að ræða.

Í húsinu eru tveir veitingastaðir - The Dubliner og Paloma.

„Það var þarna rúða sem var mölbrotin. Okkar aðkoma sneri að því að reykræsta rýmið en það er lögregla sem að rannsakar málið,“ segir varðstjóri hjá slökkviliði.

Ekkert er minnst á málið í dagbók lögreglu þar sem farið er yfir verkefni lögreglunnar í gærkvöldi og í nótt. 

Þetta er aðra nóttina í röð þar sem slökkvilið og lögregla eru kölluð út vegna sprenginga, en í fyrrinótt var tilkynnt um reyk­sprengju sem hafði verið kastað á hús í Foss­vogi í Reykjavík og eld­sprengju á hús í Hafnar­firði. Lögregla staðfesti að þær sprengjur hafi tengst átökum hópa í kjölfar hnífstunguárásarinnar í Bankastræti Club fyrir viku.

Margeir Sveinsson hjá lögreglunni segir rannsókn nú standa yfir hvort að sprengingin nú tengist þeim átökum sem hafa verið síðustu daga. 


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


×