Innlent

Fjórir handteknir vegna árásarinnar á Bankastræti Club

Atli Ísleifsson skrifar
Mikill viðbúnaður var í Bankastræti í gærkvöldi. 
Mikill viðbúnaður var í Bankastræti í gærkvöldi.  Aðsend

Lögregla hefur handtekið fjóra vegna hnífsstunguárásarinnar á Bankastræti Club í Reykjavík í gærkvöldi. Þrír særðust í árásinni. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Þar segir að mennirnir, sem séu í kringum tvítugt, hafi allir verið með stungusár. 

Fram kemur að lögreglu hafi verið tilkynnt um árásina klukkan 23:33 og strax haldið á vettvang. Fyrir liggi að það hafi verið hópur manna sem réðst inn á skemmtistaðinn og að þremenningunum þar sem þeir voru staddir í herbergi. 

Lögreglukonur með sjúkabörur á vettvangi í kvöld.

„Árásarmennirnir voru dökklæddir og með grímur, en þeir yfirgáfu skemmtistaðinn um leið og árásin var yfirstaðin. Talið er að þeir hafi verið innandyra í mjög skamman tíma, en leit að þeim hófst strax eftir að lögreglan kom á vettvang,“ segir í tilkynningunni.

Ennfremur segir að tugir lögreglumanna hafi komið að rannsókn málsins frá því í gærkvöld og nótt og hafi húsleit verið framkvæmt á allnokkrum stöðum í þágu hennar. Fjórir hafi verið handteknir vegna málsins þegar tilkynningin var send á fjölmiðla um klukkan 8:40.

Nokkur fjöldi lögreglumanna mætti á vettvang.

Lögregla vopnaðist

Ennfremur segir að rannsókn málsins sé í forgangi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, en við aðgerðirnar í gærkvöld og nótt hafi hún notið aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra. 

Rannsóknin er sögð beinast meðal annars að því hvort árásin tengist uppgjöri eða hefndaraðgerðum, en að á þessu stigi sé of snemmt að fullyrða um slíkt. 

„Svo virðist sem málsaðilar séu flestir Íslendingar, en það á eftir að skýrast frekar. Lögreglan vopnaðist vegna aðgerðanna í gærkvöld og nótt, en um mjög alvarlega árás er að ræða.

Frekari upplýsingar verða sendar fjölmiðlum eftir því sem rannsókn málsins vindur fram,“ segir í tilkynningunni.

Þá kemur fram að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi notið aðstoðar kollega sinna á  Suðurlandi við aðgerðirnar í nótt.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×