Fótbolti

„Heilt yfir vorum við allir saman mjög svekktir með okkar frammistöðu í dag“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Blaðamannafundur KSÍ vegna fyrirhugaðra landsleikja. Eiður Smári Guðjohnsen , Arnar Þór Viðarsson, Ómar Smárason,
Blaðamannafundur KSÍ vegna fyrirhugaðra landsleikja. Eiður Smári Guðjohnsen , Arnar Þór Viðarsson, Ómar Smárason,

Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari í knattspyrnu var ekki ánægður með leik íslenska landsliðsins gegn Litáum í Eystrasaltsbikarnum í dag. Ísland vann í vítaspyrnukeppni eftir markalausan leik.

„Fyrstu viðbrögð eru bara sú að við erum alls ekki ánægðir með okkar leik í dag. Það var mikið sem var „off“ hjá okkur í dag þó svo að ég sé að sjálfsögðu ánægður með að vinna vítaspyrnukeppnina.“

„Þetta var kannski í fyrsta skipti í langan tíma þar sem við náðum ekki að spila betur í seinni hálfleik en í fyrri. Við fengum ágætis færi í fyrri hálfleik og áttum að skora en hefðum líka getið fengið mark á okkur.“

Bæði lið fengu tækifæri til að skora í fyrri hálfleiknum og sluppu Litáar meðal annars einir í gegn þar sem Rúnar Alex Rúnarsson bjargaði vel í markinu. Þá komust Íslendingar einnig nálægt því að skora fyrir hlé.

„Þetta fjaraði svolítið út í seinni hálfleik, við vorum orkulauasir og mér fannst við ekki sjálfum okkur líkir. Það er regla í fótboltanum að þú mátt ekki vera undir pari, þó það sé gott í golfi þá er það ekki gott í fótboltanum.“

„Þetta er ágætis lexía fyrir okkur að við þurfum að mæta til leiks í hvert einasta skipti. Við þurfum að hlaupa mikið, þurfum að verjast vel og vinna einvígi og annan bolta. Þetta var ekki til staðar í dag. Við greinum það í kvöld.“

Með sigrinum í vítaspyrnukeppninni komst Ísland í úrslit Eystrasaltsbikarsins þar sem liðið mætir Lettlandi á laugardag.

„Það er eitt gott við þetta og það er að það er stutt í næsta leik. Það gefur okkur tækifæri á að gera betur á laugardag. Heilt yfir vorum við allir saman mjög svekktir með okkar frammistöðu í dag.“

Arnar segir það auka á gildi leiksins að hann sé mótsleikur en ekki æfingaleikur. Það var gefið töluvert af spjöldum í leiknum í dag og meðal annnars fékk Hörður Björgvin Magnússon tvö gul spjöld og þar með rautt.

„Það gerir það að sjálfsögðu. Það má ekki gleyma því að þessi mótsleikur gefur þeim aðeins meiri orku, þeir eru búnir að taka þátt í þessu móti í næstum hundrað ár og við erum að koma hér í fyrsta skipti. Það er engin afsökun, það er betra að fá svona leiki heldur en ævingaleiki þar sem er ekki verið að spila upp á neitt. Við þurfum að mæta til leiks. Við þurfum að vera fljótari í okkar færslum sóknarlega og varnarlega, vinna einvígi. Það er enginn fótboltaleikur í nútíma fótbolta sem er „walk in the park.“

Arnar segir að íslenska liðið sé enn í þróun og það megi búast við því að á þeirri vegferð gerist bæði eitthvað jákvætt og neikvætt.

„Þetta er skóli fyrir okkur og hluti af því sem við erum búnir að tala um í heilt ár að við séum að þróta nýtt lið og það gengur með „ups and downs“. Í dag var svo sannarlega lægð. Við lærum af þessu og greinum og komum sterkir til baka á laugadag.“

Þá segir Arnar að hann hafi verið rólegur þegar út í vítaspyrnukeppnina hafi verið komin og var ánægður með hvernig leikmenn tókust á við hana.

„Taugarnar voru allt í lagi. Þegar komið er út í vítaspyrnukeppni þá getur maður ekki gert mikið. Við ræddum um það áður en þeir fóru í vítakeppnina að leikmenn ættu að nýta þetta líka til að setja í reynslubankann. Vera ákveðnir hvar þeir ætluðu að sparka og vera með sjálfstraustið í lagi, það er það eina sem þú getur gert í vítaspyrnukeppni. Það var allavega eitthvað sem við gerðum vel í dag.“

Eins og áður segir mætir íslenska liðið Lettum á laugardag í úrslitaleik mótsins. Það verða breytingar á liðinu fyrir þann leik.

„Við verðum að hvíla okkur vel og nærast og vera tilbúnir á laugardag. Þá komum við aftur að því að andstæðingurinn mætir þar til leiks til að vinna þennan bikar og við þurfum að gíra okkur upp í það. Hörður Björgvin fékk rautt spjald og er í banni. Jón Dagur og Rúnar Alex eru að yfirgefa hópinn þannig að það fækkar aðeins í hópnum og við þurfum að greina stöðuna.“ 

„Það er stutt á milli leikja sem er jákvætt og okkur hlakkar til að taka þátt i úrslitaleik því það er ekki oft sem Ísland tekur þátt í úrslitaleik í hverju svo sem það er.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×