Innlent

Segir Bjarna ekki þora að mæta sér í Kast­ljósi

Árni Sæberg skrifar
Kristrún Frostadóttir er formaður Samfylkingarinnar.
Kristrún Frostadóttir er formaður Samfylkingarinnar. Vísir/Vilhelm

Formaður Samfylkingarinnar segir Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra ekki þora að mæta sér í Kastljósi í kvöld til þess að ræða Íslandsbankaskýrsluna. Hún segir málinu engan veginn vera lokið.

Kristrún Frostadóttir segir að til hafi staðið að hún myndi mæta Bjarna Benediktssyni í Kastljósi kvöldsins en í stað þess muni hún mæta þangað ein. 

„Fjármálaráðherra þorir ekki að mæta mér í Kastljósi. Enda veit ráðherra að hann hefur vonlausan málstað að verja í bankasölumálinu. Þetta veit öll þjóðin,“ segir hún á Facebook.

Hún segir Bjarna ekki vilja eiga orðaskipti við formann stjórnarandstöðuflokks um bankasöluna í beinni útsendingu. „Þessu máli er engan veginn lokið,“ segir Kristrún.

Stjórnarandstaðan hefur kallað eftir skipun rannsóknarnefndar

Kristrún ræddi Íslandsbankaskýrsluna við fréttastofu í dag. Hún segir að alltaf hafi legið fyrir að úttekt Ríkisendurskoðunar myndi ekki skera úr um lagalega ábyrgð Bjarna varðandi annmarka á sölu hluta eignarhlutar ríkisins í Íslandsbanka. 

Til þess að fá skorið úr um hana þurfi að skipa rannsóknarnefnd á vegum Alþingis. Stjórnarandstaðan hafi þegar kallað eftir því að nefnd verði skipuð til þess að semja skýrslu um lagalega ábyrgð fjármálaráðherra.

Segir tekið fast til orða í skýrslunni

Kristrún segir hins vegar að fast sé tekið til orða í skýrslu Ríkisendurskoðunar og komist ansi nálægt því að fullyrða að lög hafi verið brotin. Þar komi fram að hæsta mögulega söluverði hafi ekki verið fylgt eftir og að jafnræði fjárfesta hefi ekki verið gætt í ferlinu.

Málið snúist um meira en persónur og leikendur

Kristrún segir að öll þjóðin sjái að salan á Íslandsbanka sé klúður og einhver verði að sæta ábyrgðar vegna þess. Nauðsynlegt sé að komast að því hvar lagaleg ábyrgð liggi með því að skipa rannsóknarnefnd.

„Þetta snýst um miklu meira en persónur og leikendur. Heldur traust til stjórnmálanna og traust líka til fjármálakerfisins. Við erum búin að vinna að því í fjórtán ár að byggja það aftur upp, þannig að þetta er risamál og þessu er alls ekki lokið með þessari skýrslu,“ segir Kristrún.

Viðtal við Kristrúnu Frostadóttur má sjá í spilaranum hér að neðan:



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×