Fótbolti

G-riðill á HM í Katar: Sigurstranglegir Brassar vilja enda tuttugu ára bið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Neymar fagnar einu 75 landsliðsmarka sinna. Hann nálgast markamet Pelés með landsliðinu óðfluga.
Neymar fagnar einu 75 landsliðsmarka sinna. Hann nálgast markamet Pelés með landsliðinu óðfluga. getty/Kenta Harada

Annað heimsmeistaramótið í röð eru Brasilía, Sviss og Serbía saman í riðli. Kosta Ríka var fjórða hjólið undir vagninum 2018 en að þessu sinni er það Kamerún.

Vísir telur niður í heimsmeistaramótið í Katar sem hefst 20. nóvember næstkomandi. Í síðustu viku og næstu daga tökum við fyrir einn riðil í keppninni á hverjum degi og að þessu sinni er það G-riðillinn sem fær á sig sviðsljósið.

Tuttugu ár eru síðan Brassar urðu heimsmeistarar og þeim er farið að lengja eftir gullstyttunni. Þeir ættu ekki að eiga í teljandi vandræðum með að komast upp úr riðlinum en hin liðin þrjú telja sig eflaust öll eiga góða möguleika á að ná 2. sætinu. Svisslendingar eru fastagestir á stórmótum, Serbar búa yfir gríðarlega miklum sóknarþunga og gætu valdið usla og engin Afríkuþjóð hefur verið oftar með á HM en Kamerúnar.

Þjóðirnar í G-riðlinum:

  • Brasilía er á sínu 22. HM og því 22. í röð
  • Sviss á sínu tólfta HM og því fimmta í röð
  • Serbía er á sínu þrettánda HM og öðru í röð
  • Kamerún á sínu áttunda HM og því fyrsta síðan 2014

--

Besti árangur þjóðanna í G-riðli í HM sögunni:

  • Brasilía: Fimm sinnum heimsmeistari (1958, 1962, 1970, 1994, 2002)
  • Sviss: Átta liða úrslit (1934, 1938, 1954)
  • Serbía: 4. sæti (1930, 1962)
  • Kamerún: Átta liða úrslit (1990)

Brassar eru í efsta sæti heimslistans og flestir spá því að þeir standi uppi sem sigurvegarar í Katar. Það er ekki að ástæðulausu enda er brasilíski hópurinn frábærlega mannaður í öllum stöðum. Tite mætir með Brasilíu á sitt annað heimsmeistaramót en fyrir fjórum árum tapaði brasilíska liðið frekar ósanngjarnt fyrir því belgíska í átta liða úrslitum. Brassar mæta fullir sjálfstrausts til leiks enda bara tapað einu sinni frá ársbyrjun 2020. Það var fyrir Argentínumönnum í úrslitaleik Suður-Ameríkukeppninnar í fyrra.

Brasilía hefur ekki orðið heimsmeistari síðan 2002 með R-in þrjú, Ronaldo, Rivaldo og Ronaldinho, fremsta í flokki en það er margt sem bendir til þess að Brassar geti bætt sjötta heimsmeistaratitilinum í safnið í Katar. Brassar koma fullir sjálfstrausts til leiks á mótið. Þeir fóru taplausir í gegnum undankeppnina og hafa unnið síðustu sjö leiki sína með markatölunni 26-2.

Rivaldo og Ronaldo skoruðu samtals þrettán mörk þegar Brasilía varð síðast heimsmeistari.getty/Mark Leech

Hjá Brössum er valinn maður í hverju rúmi. Þeir eru með tvo af bestu markvörðum heims, frábært miðvarðapar í Thiago Silva og Marquinhos, sterka og vel spilandi miðjumenn og ótal kosti í framlínunni, meðal annars Neymar, Gabriel Jesus og Vinícius Junior.

Dragan Stojkovic var leikmaður Júgóslavíu þegar liðið komst síðast upp úr sínum riðli á HM, í Frakklandi 1998. Hann er núna þjálfari serbneska landsliðsins og hefur gert afar góða hluti með það síðan hann tók við því á afmælisdaginn sinn, 3. mars, í fyrra. Serbar tryggðu sér sæti á HM með dramatískum sigri í Portúgal í lokaumferð undankeppninnar.

Aleksandar Mitrovic fagnar marki sínu gegn Portúgal sem kom Serbíu á HM.getty/Carlos Rodrigues

Serbneska liðið er framhlaðningur en allir bestu leikmenn þess spila framarlega á vellinum. Aleksandar Mitrovic er alltaf frábær með landsliðinu og skoraði sigurmarkið gegn Portúgal og þá Dusan Vlahovic aðalframherji Juventus. Til að fóðra þá og leggja mörk í púkkið eru menn á borð við fyrirliðann Dusan Tadic, Sergej Milenkovic-Savic og Filip Kostic. Þótt minni spámenn skipi stöðurnar aftar á vellinum spila Serbar fína vörn og hafa aðeins fengið á sig nítján mörk í tuttugu leikjum undir stjórn Stojkovic.

Svona komust þjóðirnar í G-riðli á HM:

  • 11. nóvember 2021: Brasilía vann Suður-Ameríkuriðilinn
  • 14. nóvember 2021: Serbía vann A-riðil undankeppninnar í Evrópu
  • 15. nóvember 2021: Sviss vann C-riðil undankeppninnar í Evrópu
  • 29. mars 2022: Kamerún komst áfram úr 3. umferð undankeppninnar í Afríku

--

Þjóðirnar á nýjasta styrkleikalista FIFA

  • 1. sæti - Brasilía
  • 15. sæti - Sviss
  • 21. sæti - Serbía
  • 43. sæti - Kamerún

Til að komast upp úr riðlinum þurfa Serbar að hafa betur gegn Svisslendingum. Þeir afar reyndir á stóra sviðinu og standa sig venjulega vel þar. Sviss hafa komist á níu af síðustu tíu stórmótum og í útsláttarkeppnina á fimm þeirra. Á síðasta stórmóti, EM alls staðar í fyrra, sló Sviss heimsmeistara Frakklands út í sextán liða úrslitum eftir framlengdan leik og vítaspyrnukeppni. Svisslendingar töpuðu svo fyrir Spánverjum í vítakeppni í átta liða úrslitunum.

Svisslendingar fagna eftir að hafa slegið Frakka úr leik í vítaspyrnukeppni á EM á síðasta ári.getty/Justin Setterfield

Sviss treystir enn á kynslóðina sem lenti í 2. sæti á EM U-21 árs 2011 með þá Xherdan Shaqiri, Granit Xhaka og Yann Sommer fremsta í flokki. Þar fyrir utan eru Svisslendingar með fullt af frambærilegum leikmönnum og það er varasamt að vanmeta þetta þétta og þrautreynda lið.

Kamerún er reyndasta Afríkuþjóðin á HM og er með í áttunda sinn á mótinu. Síðast fór ekki vel en Kamerúnar lentu í 32. og neðsta sæti á HM í Rússlandi. Kamerún tryggði sér sæti á HM í Katar með dramatískum hætti en Karl Toko Ekambi skoraði sigurmark liðsins í seinni umspilsleiknum gegn Alsír þegar fjórar mínútur voru komnar fram yfir leiktímann í framlengingu.

Vincent Aboubakar er markahæstur í kamerúnska hópnum með 33 landsliðsmörk.getty/Visionhaus

Rigobert Song spilaði á fjórum heimsmeistaramótum og er yngsti leikmaður sem hefur verið rekinn út af á HM. Song mætir nú á sitt fimmta HM og það fyrsta sem þjálfari. Önnur gömul hetja, Samuel Eto'o, er orðinn forseti knattspyrnusambands Kamerúnas og hann segir að Kamerúnar fari til Katar til að verða heimsmeistarar.

Það verða þeir ekki en Kamerún getur alveg farið upp úr riðlinum. Liðið er með frábæran markvörð í André Onana, André-Frank Zambo Anguissa hefur verið einn besti miðjumaður ítölsku úrvalsdeildarinnar og framlínan er vel skipuð. Þar fer fremstur í flokki fyrirliðinn Vincent Aboubakar sem var markakóngur Afríkumótsins í fyrra þar sem kamerúnska liðið komst í undanúrslit á heimavelli. Toko Ekambi stendur alltaf fyrir sínu og Eric Maxin Choupo-Moting hefur verið sjóðheitur fyrir Bayern München upp á síðkastið.

Adenor Leonardo Bacchi, eða Tite, hefur stýrt brasilíska landsliðinu í 76 leikjum. Aðeins fimm þeirra hafa tapast.getty/Chris Ricco

Þjálfarar liðanna í G-riðlinum:

Brasilía - Hinn 61 árs Tite hefur stýrt brasilíska landsliðinu frá 2016. Hann gerði Brassa að Suður-Ameríkumeisturum 2019.

Sviss - Hinn 48 ára Murat Yakin tók við svissneska landsliðinu eftir EM í fyrra. Lék 49 landsleiki og skoraði fjögur mörk á árunum 1994-2004.

Serbía - Hinn 57 ára Dragan Stojkovic hefur stýrt Serbum frá því í mars 2021. Lék 84 landsleiki og skoraði fimmtán mörk og lék fyrir Júgóslavíu á HM 1990 og 1998.

Kamerún - Hinn 46 ára Rigobert Song tók við Kamerúnum fyrir HM-umspilið í vor. Er leikjahæstur í sögu kamerúnska landsliðsins með 137 leiki og lék á HM 1994, 1998, 2002 og 2010.

Neymar og Vinícius Junior eru í ógnarsterkri framlínu Brasilíu.getty/Buda Mendes

Stærstu stjörnurnar:

Neymar (Brasilíu) - Þrítugur sóknarmaður Paris Saint-Germain. Hefur leikið 121 landsleik og skorað 75 mörk. Vantar aðeins tvö mörk til að jafna markamet Peles með brasilíska landsliðinu. Er á leið á sitt þriðja heimsmeistaramót. Einn albesti leikmaður heims síðasta áratuginn.

Vinícius Junior (Brasilíu) - 22 ára sóknarmaður Real Madrid. Skoraði sigurmark Real Madrid gegn Liverpool í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í vor.

Granit Xhaka (Sviss) - Þrítugur miðjumaður Arsenal. Hefur átt frábært tímabil með Skyttunum sem eru á toppi ensku úrvalsdeildarinnar. Er landsliðsfyrirliði Sviss og á leið á sitt þriðja heimsmeistaramót.

Xherdan Shaqiri (Sviss) - 31 ára sóknarmaður Chicago Fire. Fór til Bandaríkjanna fyrr á þessu ári eftir að hafa spilað með stórliðum í Evrópu á borð við Bayern München, Inter og Liverpool. Þriðji leikjahæsti og sjötti markahæsti leikmaður í sögu serbneska landsliðsins.

Aleksandar Mitrovic (Serbíu) - 28 ára sóknarmaður Fulham. Er einn af markahæstu leikmönnum ensku úrvalsdeildarinnar í vetur og sló markametið í B-deildinni á síðasta tímabili. Markahæsti leikmaður í sögu serbneska landsliðsins með fimmtíu mörk.

Dusan Tadic (Serbíu) - 33 ára miðjumaður Ajax. Var í lykilhlutverki hjá Ajax sem komst í undanúrslit Meistaradeildarinnar 2019. Er fyrirliði serbneska landsliðsins.

Vincent Aboubakar (Kamerún) - Þrítugur framherji Al-Nassr í Sádí-Arabíu. Er fyrirliði kamerúnska landsliðsins og er þriðji markahæstur í sögu þess. Var markakóngur Afríkumótsins 2022.

André-Frank Zambo Anguissa (Kamerún) - 26 ára miðjumaður Napoli. Hefur átt stóran þátt í frábæru gengi Napoli sem vann sinn riðil í Meistaradeildinni og er með átta stiga forskot á toppi ítölsku úrvalsdeildarinnar.

Rodrygo fagnar fyrsta landsliðsmarki sínu, gegn Paragvæ.getty/Pedro Vilela

Fylgist með þessum:

Rodrygo (Brasilíu) - 21 árs sóknarmaður Real Madrid. Hefur byrjað tímabilið af miklum krafti og verið sérstaklega öflugur í Meistaradeildinni. Leikmaður í stöðugri sókn. Pabbi hans er yngri en Dani Alves, elsti leikmaðurinn í brasilíska hópnum.

Noah Okafor (Sviss) - 22 ára sóknarmaður Red Bull Salzburg. Hefur skorað tíu mörk á tímabilinu, þar af þrjú í Meistaradeildinni. Kom til Salzburg frá Basel fyrir tveimur árum.

Strahinja Pavlovic (Serbíu) - 21 árs varnarmaður Red Bull Salzburg. Spilar vinstra megin í þriggja manna vörn Serba. Býr yfir mikilli reynslu og hefur komið víða við þrátt fyrir ungan aldur. Hefur varla misst úr landsleik síðan hann lék sinn fyrsta haustið 2020.

Neymar í allri sinni dýrð utan á háhýsi í Doha, höfuðborg Katar.getty/Mike Hewitt

Leikirnir í G-riðlinum

  • Fimmtudagur 24. nóvember: Sviss - Kamerún (Klukkan 10:00)
  • Fimmtudagur 24. nóvember: Brasilía - Serbía (Klukkan 19:00)
  • Mánudagur 28. nóvember: Kamerún - Serbía (Klukkan 10:00)
  • Mánudagur 28. nóvember: Brasilía - Sviss (Klukkan 16:00)
  • Föstudagur 2. desember: Serbía - Sviss (Klukkan 19:00)
  • Föstudagur 2. desember: Kamerún - Brasilía (Klukkan 19:00)


Tengdar fréttir

E-riðill á HM í Katar: Gerast kraftaverk?

Stórþjóðirnar Spánn og Þýskaland eigast við í E-riðli heimsmeistaramótsins í Katar og eiga bæði harma að hefna eftir mikil vonbrigði á mótinu í Rússlandi fyrir fjórum árum. Margt óvænt þarf að gerast til að leið liðanna í 16-liða úrslit sé ekki greið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×