Innlent

Lögreglu grunar að kveikt hafi verið í strætisvagninum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Mikill reykur kom upp og var bílstjórinn fluttur á Landspítalann til aðhlynningar.
Mikill reykur kom upp og var bílstjórinn fluttur á Landspítalann til aðhlynningar. Aðsend

Eldur kviknaði í strætisvagni við Grensásveg um klukkan 17.30 í gær og samkvæmt yfirliti lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu yfir verkefni gærkvöldsins og næturinnar leikur grunur á að um íkveikju hafi verið að ræða.

Fréttastofa greindi frá málinu í gær.

Eldurinn kviknaði í sætum aftarlega í vagninum en búið var að slökkva hann þegar lögreglu bar að. Greindi vitni frá því að hafa sótt slökkvitæki á veitingastað nærri vettvangi og notað það til að slökkva eldinn. 

Lögregla segir ökumann strætisvagnsins hafa fengið mikið áfall og andað að sér reyk. Var hann fluttur á Landspítalann til aðhlynningar.

Lögregla var einnig kölluð á vettvang í gærkvöldi þegar tilkynning barst um þjófnað á veitingastað í miðborginni. Þar var maður sagður hafa brotist inn á lager og stolið áfengisflöskum og bakpoka með „DJ-græjum“.

Gerandinn náðist á upptökur í öryggiskerfi og var handtekinn seinna um nóttina. Viðurkenndi hann brotið. Hann var í annarlegu ástandi og var vistaður í fangageymslum.

Um klukkan 22.30 voru afskipti höfð af öðrum manni í annarlegu ástandi í miðborginni. Sá var úti á miðri akbraut og neitaði fyrirmælum lögreglu um að fara af akbrautinni. Þá neitaði hann að segja til nafns eða gefa upp kennitölu. 

Hann var þá handtekinn og færður á lögreglustöð.

Maðurinn upplýsti að lokum um kennitölu sína, var kærður fyrir brot á lögreglusamþykkt og látinn laus.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×