Fótbolti

Bielsa í viðræðum við Bournemouth um að taka við liðinu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Marcelo Bielsa gæti tekið við Bournemouth.
Marcelo Bielsa gæti tekið við Bournemouth. Robbie Jay Barratt - AMA/Getty Images

Argentínski knattspyrnuþjálfarinn Marcelo Bielsa gæti tekið við enska úrvalsdeildarfélaginu Bournemouth, en hann verið án starfs síðan hann var látinn fara frá Leeds í febrúar á þessu ári.

Bournemouth hefur verið í þjálfaraleit síðan félagið lét Scott Parker taka poka sinn eftir aðeins fjóra leiki á yfirstandandi tímabili. Gary O'Neil hefur gegnt stöðu bráðabirgðastjóra síðan Parker var látinn fara.

Liðinu gekk ágætlega fyrst um sinn eftir að O'Neil tók við stjórnartaumunum og Bournemouth tapaði ekki í sex leikjum í röð. Eftir það tapaði félagið hins vegar fjórum í röð, en liðið komst aftur á sigurbraut með 3-0 sigri gegn Everton í gær.

Samkvæmt heimildum BBC gæti O'Neil enn fengið fastráðningu sem aðalþjálfari Bournemouth, en nú hefur nafn Bielsa einnig birst í umræðunni.

Bielsa er sagður hafa verið í viðræðum við félagið undanfarna daga. Eins og áður segir var hann seinast þjálfari Leeds og er hann enn mjög vel liðinn hjá stuðningsmönnum félagsins.

Bielsa tók við Leeds árið 2018 og kom liðinu upp í ensku úrvalsdeildina eftir 16 ára fjarveru. Undir hans stjórn hafnaði liðið í níunda sæti á sínu fyrsta tímabili í deild þeirra bestu, en árið eftir fór að halla undan fæti og Bielsa var loks látinn fara í febrúar á þessu ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×