Fótbolti

Norr­köping vill kaupa Arnór til baka frá CSKA

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Arnór Sigurðsson var frábær með Norrköping á síðari hluta tímabilsins sem lauk nú nýverið.
Arnór Sigurðsson var frábær með Norrköping á síðari hluta tímabilsins sem lauk nú nýverið. Norrköping

Sænska knattspyrnufélagið Norrköping er á fullu þessa dagana að reyna festa kaup á fyrrum leikmanni liðsins, Arnóri Sigurðssyni. Hann lék með liðinu síðari hluta tímabils eftir að hafa fengið undanþágu frá FIFA.

Hinn 23 ára gamli Arnór kom eins og stormsveipur inn í sænsku deildina þegar farið var að síga á síðari hluta hennar. Hann skoraði sex mörk og gaf fjórar stoðsendingar í aðeins 11 leikjum.

Staðarblaðið Norrköpings Tidningar greinir frá að Norrköping sé nú í óðaönn að reyna kaupa leikmanninn frá CSKA Moskvu. Hann fékk undanþágu frá FIFA, líkt og aðrir erlendir leikmenn í Rússlandi, til að fara á láni en er samningsbundinn CSKA út næstu leiktíð eða til sumarsins 2024.

Hvort Norrköping sé eina liðið sem hefur áhuga á Arnóri er óvíst en miðað við frammistöður hans með liðinu má reikna með að önnur félög horfi hýru auga til þessa skemmtilega leikmanns.

Arnór er hluti af íslenska landsliðshópnum sem tekur þátt í Eystrasaltsbikarnum síðar í þessum mánuði. Hann getur þar bætt við þá 23 A-landsleiki sem hann hefur nú þegar leikið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×