Fótbolti

Heimir kynntur til leiks hjá FH

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Heimir Guðjónsson er snúinn aftur til FH.
Heimir Guðjónsson er snúinn aftur til FH. Twitter/FH

Heimir Guðjónsson hefur formlega verið kynntur til leiks sem nýr þjálfari karlaliðs félagsins í knattspyrnu. Sigurvin Ólafsson var á sama tíma kynntur sem aðstoðarþjálfari liðsins, en félagið greindi frá þessu á stuðningsmannakvöldi sem haldið var í kvöld.

Heimir tekur því við stöðu aðalþjálfara liðsins af Eiði Smára Guðjohnsen sem stýrði félaginu seinni hluta sumars. Hann gerir þriggja ára samning við félagið. 

Sigurvin var aðstoðarmaður Eiðs í sumar, en stýrði liðinu í lokaleikjum tímabilsins eftir að Eiði var vikið til hliðar. Þá er greint frá því á Fótbolti.net að Davíð Þór Viðarsson, yfirmaður knattspyrnumála hjá FH, hafi einnig tilkynnt að Eiður muni ekki snúa aftur til félagsins.

Heimir er því að snúa aftur til FH, en hann var rekinn frá félaginu árið 2017. Undir stjórn Heimis varð FH fimm sinnum Íslandsmeistari, síðast árið 2016.

Seinustu tvö ár hafa verið mögur hjá þessu sigursæla félagi þar sem liðið hafnaði í sjötta sæti efstu deildar tímabilið 2021 og var svo hársbreidd frá því að falla úr Bestu-deildinni á nýafstöðnu tímabili.

Hávær orðrómur var um að Heimir ætti að taka við FH-liðinu þegar lokakafli Bestu-deildarinnar var fram undan og Eiði hafði verið vikið til hliðar. Sá orðrómur átti ekki við rök að styðjast og FH-ingar töluðu ekki við þjálfarann fyrr en eftir tímabilið, en Heimir hefur verið án félags síðan hann var látinn fara frá Valsmönnum fyrr í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×