Eftir að hafa fengið að vita að hann væri í 26 manna hópi Brasilíu sem fer á HM í Katar síðar í mánuðinum fór Pedro á skeljarnar og bað kærustu sinnar. Og til að toppa daginn sagði hún já.
Hinn 25 ára Pedro horfði á beina útsendingu frá valinu á HM-hópnum ásamt fjölskyldu sinni. Eftir að í ljós kom að hann væri á leið til Katar kraup hann fyrir framan kærustu sína og góður dagur varð enn betri.
CONVOCADO E AGORA NOIVO! @Pedro9oficial pediu sua namorada Fernanda Nogueira em casamento logo após a convocação! LINDOS! #CRF pic.twitter.com/atHwqKKi0j
— Flamengo (@Flamengo) November 7, 2022
Eftir erfiða tíma hjá Fiorentina hefur Pedro spilað stórvel og raðað inn mörkum síðan hann gekk í raðir Flamengo í heimalandinu. Á þessu ári hefur hann samtals skorað 29 mörk fyrir Flamengo og átti stóran þátt í að liðið vann Copa Libertadores, Meistaradeild Suður-Ameríku.
Pedro hefur leikið tvo landsleiki fyrir Brasilíu og skorað eitt mark, í vináttulandsleik gegn Túnis í lok september.
Brasilía hefur leik á HM gegn Serbíu 24. nóvember. Fjórum dögum síðar mæta Brassar Svisslendingum og þeir ljúka svo riðlakeppninni gegn Kamerúnum 2. desember.