Innlent

Hátt­semi Isavia feli í sér at­lögu að störfum blaða­manna

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Sigríður Dögg Auðunsdóttir er formaður Blaðamannafélags Íslands.
Sigríður Dögg Auðunsdóttir er formaður Blaðamannafélags Íslands. Vísir/Vilhelm

Blaðamannafélag Íslands krefur ríkislögreglustjóra og Isavia svara vegna aðgerða starfsmanna Isavia við brottflutning hælisleitenda fyrr í vikunni. Flóðljósum var beitt gegn blaðamönnum til að hindra fréttaflutning af málinu.

Isavia birti tilkynningu í gær þar sem félagið harmaði að hafa hindrað störf fjölmiðla við brottvísunina. Starfsfólk félagsins hafi verið að fylgja fyrirmælum lögreglu. Meðal þess sem lögregla hafi farið fram á var að komið yrði í veg fyrir myndatökur.

Blaðamannafélag Íslands sendi ríkislögreglustjóra og forstjóra Isavia bréf vegna aðgerðanna í dag. 

„Blaðamannafélagið lítur þetta alvarlegum augum enda felur þessi háttsemi starfsmanna Isavia í sér atlögu að störfum blaðamanna. Óumdeilt er að þarna var um fréttnæman atburð að ræða sem fullt tilefni er til að fjalla um. Hvorki lögregla né opinbert hlutafélag, sem Isavia er, á að fá að hlutast til um eðlileg störf blaðamanna eða hindra að fluttar séu fréttir af atburðum sem eiga sér stað innan starfssvæðis flugvallarins,“ er meðal þess sem fram kemur í bréfinu.

Þá kemur fram að frjáls fjölmiðlun sé ein af grundvallarstoðum lýðræðisríkja og lagarök rakin að því tilefni. Atburðurinn er sagður hafa verið ótvírætt fréttnæmur og fullt tilefni hafi verið fyrir blaðamenn að fjalla um málið. Fréttafólk hafi virt allar lokanir og takmarkanir á svæðinu.

Blaðamannafélag Íslands fer þess á leit við stjórnendur Isavia og Ríkislögreglustjóra að upplýst verði um:

1. Hver tók ákvörðun um að hafa áhrif á og hamla eðlilegum störfum blaðamanna?

a. Ef beiðni barst Isavia um að hamla störfum blaðamanna, hvaðan kom sú beiðni?

2. Á hvaða grunni var slík ákvörðun tekin?

3. Hvernig munu stjórnendur Isavia og Ríkislögreglustjóra bregðast við og hvernig munu verkferlar hins opinbera hlutafélags og lögreglunnar breytast til að koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig?


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×