Innlent

Læknir, túlkur og sér­þjálfaður eftir­lits­aðili tóku þátt í brott­vísuninni

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Fimmtán hælisleitendur voru fluttir úr landi í vikunni af stoðdeild ríkislögreglustjóra. Til stóð að senda 28 manns sem hafa sótt um alþjóðlega vernd hér á landi til Grikklands en þrettán þeirra fundust ekki þegar lögregluþjónar leituðu þeirra.
Fimmtán hælisleitendur voru fluttir úr landi í vikunni af stoðdeild ríkislögreglustjóra. Til stóð að senda 28 manns sem hafa sótt um alþjóðlega vernd hér á landi til Grikklands en þrettán þeirra fundust ekki þegar lögregluþjónar leituðu þeirra. Aðsend

Við brottflutning fimmtán hælisleitenda í vikunni voru, auk lögreglu, læknir, túlkur og sérþjálfaður eftirlitsaðili. Leiguflugvél var fengin undir fólkið. Stjórnarráðið segir að lögum hafi verið fylgt út í ystu æsar.

Stjórnarráðið birti tilkynningu fyrr í kvöld í tilefni af aðgerðum lögreglu við brottvísun hælisleitenda aðfaranótt 3. nóvember.

„Útlendingi sem fær endanlega synjun á umsókn um vernd á stjórnsýslustigi ber lögum samkvæmt að yfirgefa landið enda er hann þá í ólögmætri dvöl […] Að jafnaði stendur útlendingum í þessari stöðu til boða að fara sjálfviljugir úr landi, án aðkomu lögreglu, eftir atvikum með aðstoð stjórnvalda svo sem með greiðslu fargjalda. Fari einstaklingur ekki sjálfviljugur er flutningur úr landi í fylgd lögreglu eina úrræði stjórnvalda til að framfylgja frávísun eða brottvísun.“

Stjórnarráðið rekur aðstæður í hælisleitenda í Grikklandi og segir að stjórnvöld og dómstólar hafi hafnað því að endursendingar til Grikklands brjóti í bága við Mannréttindasáttmála Evrópu og lög um útlendinga.

Fjölskylda, sem var meðal þeirra sem vísað var úr landi í vikunni, átti von á því að skorið yrði mjög bráðlega úr því hvort þau fengju efnislega meðferð hér á landi. Stjórnarráðið áréttar að efnisleg úrlausn fresti ekki réttaráhrifum.

„Þannig verður framkvæmd ákvörðunar um brottvísun eða frávísun ekki frestað með því að höfða mál fyrir dómi nema kærunefnd útlendingamála fallist á slíkt. Að sama skapi frestar það ekki framkvæmd ákvörðunar að leggja fram beiðni um endurupptöku máls.“


Tengdar fréttir

Spyr hvort önnur fram­kvæmd sé nokkuð í boði

Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, segir að farið hafi verið að lögum þegar hælisleitendum var vísað úr landi í fyrrinótt. Hann spyr hvort að önnur framkvæmd en sú að lögregla leiti uppi og vísi þeim frá landi með valdi synjað hefur verið um dvöl hér á landi en neita að fara. Forsætisráðherra minnir á að lög um útlendinga hafi verið samþykkt í breiðri sátt árið 2016.

Eðlilegt að fólk reiðist þegar það sjái valdbeitingu

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að í málum þeirra fimmtán hælisleitenda sem sendir hafi verið úr landi í gær hafi legið fyrir stjórnvaldsákvörðun, þótt einhverjir hafi óskað eftir endurupptöku eða leitað til dómstóla.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×