Innlent

Reynir sekur um mjög al­var­leg brot gegn siða­reglum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Reynir Traustason ritstjóri Mannlífs hafði betur gegn Róbert Wessman hjá Fjölmiðlanefnd.
Reynir Traustason ritstjóri Mannlífs hafði betur gegn Róbert Wessman hjá Fjölmiðlanefnd. Vísir

Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands telur að Reynir Traustason, ritstjóri Mannlífs, hafi gert sekur um mjög alvarleg brot gegn siðareglum blaðamanna með umfjöllun um Róbert Wessmann.

Þetta er niðurstaða siðanefndarinnar í tveimur málum sem nefndin fjallaði um síðastliðin mánudag. Róbert tiltók þar alls 29 greinar sem birtust á vef Mannlífs á tímabilinu 4. mars til 13. september. Greinarnar eiga það sameiginlegt að Róbert var umfjöllunarefni þeirra, á einn eða annan hátt. 

Í kærunum til siðanefndar vísaði Róbert í fyrri úrskurði siðanefndar frá því í maí um að Reynir teldist vanhæfur til að skrifa fréttir um Róbert. Var það vegna þess að Reynir hafði móttekið fjármuni frá Halldóri Kristmannssyni vegna bókarskrifa um Róbert. Samstarfsmennirnir fyrrverandi, Róbert og Halldór, hafa deilt harðlega á hvorn annan á opinberum vettvangi.

Sagði siðanefndina ganga erinda auðmanna

Í andsvörum Reynis kemur annars vegar fram að hann telji að Róbert sé með kærunum að reyna að þagga niður í umfjöllun um málefni sem tengist honum og eigi erindi við almenning. Hins vegar er harðlega deilt á siðanefndina og hún sökum um að ganga erinda auðmanna.

Í fyrri úrskurði siðanefndar er vísað í þær greinar sem birtar voru á tímabilinu 4. mars til 17. maí, það er áður en að úrskurður nefndarinnar féll í maí síðastliðnum. Telur nefndin, líkt og í maí, að Reynir hafi verið vanhæfur til að skrifa greinar um Róbert þar sem hann hafi tekið við fjármagni frá Halldóri til þess að skrifa bók um Róbert.

Hvað varðar greinarnar sem skrifaðar voru eftir að úrskurðinn í maí féll, telur siðanefndin að Reynir hafi ítrekað gerst brotlegur við 5. grein siðareglna blaðamanna sem fjallar um hagsmunatengsl. Telur siðanefndin að brotin séu ítrekuð og alvarleg.

Þá gefur nefndin lítið fyrir fyrirvara sem bætt var við umræddar greinar sem skrifaðar voru eftir 13. júní um að höfundur þeirra ynni að bók um Róbert. Telur nefndin að slíkur fyrirvari breyti engu um brot Reynis.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×