Fótbolti

Fótboltabullur beita sér fyrir lýðræði í Brasilíu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fótboltaáhugamenn í Brasilíu tóku til sinna ráða. Þeir vildu alls ekki missa af leik síns liðs.
Fótboltaáhugamenn í Brasilíu tóku til sinna ráða. Þeir vildu alls ekki missa af leik síns liðs. Getty/Pedro Vilela

Fótboltabullur hafa oftast ekki góða ímynd á sér enda vanir að búa til meiri vandræði en leysa þau. Það átti þó ekki við í Brasilíu í þessari viku í kjölfar ólgu eftir Forsetakosningar í landinu.

Vandamál sköpuðust víða um Brasilíu þar sem tapsárir öfgahægri stuðningsmenn fráfarandi forseta, Jair Bolsonaro, settu upp vegatálma til að mótmæla niðurstöðum kosninganna.

Luiz Inácio Lula da Silva var kosinn forseti en hinn brasilíski Trump, Jair Bolsonaro, neitar að viðurkenna úrslitin. Kemur kannski fáum á óvart með þeim viðbrögðum.

Öfgahægrimenn Bolsonaro halda því fram að kosningarsvindl hafi ráðið því að þeirra maður missti Forsetaembætti. Þeirra svar við því var að trufla umferð út um allt land með því að setja upp vegatálma og búa með því til alls kyns vandræði, tafir og ólgu í þjóðfélaginu.

Hæstiréttur í Brasilíu úrskurðaði að lögreglan yrði að sjá til þess að vegirnir haldist opnir en myndbönd sýna suma lögreglumenn taka þátt í mótmælunum.

Lögreglan náði að opna marga vegi en alls ekki alla. Þeir fengu aftur á móti hjálp úr óvæntri átt. Brasilíska blaðið O Globo segir frá því að minnsta kosti fjórar sveitir af öfgastuðningsmannasveitum brasilískra fótboltafélaga hafi brotið sér leið í gegnum vegatálma útsendara Bolsonaro.

Brasilísku bullurnar vildu alls ekki missa af útileikjum sinna liða og tóku því til sinna ráða. Tvö dæmi um slíkt voru meðal annars nefnd í greininni.

Stuðningsmenn Atlético Mineiro opnuðu veginn á milli Belo Horizonte og Sao Paulo og stuðningsmenn Corinthians opnuðu veginn frá Sao Paulo til Rio.

Atlético Mineiro átti útileik á móti Sao Paulo og lið Corinthians átti útileik á móti Flamengo á Maracana leikvanginum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×