Erlent

Disney-þemagarðinum í Sjanghæ lokað vegna Covid og gestir fastir inni

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Disney-þemagarðurinn í Sjanghæ var lokaður í þrjá mánuði fyrr á þessu ári vegna Covid-19.
Disney-þemagarðurinn í Sjanghæ var lokaður í þrjá mánuði fyrr á þessu ári vegna Covid-19. AP/Chen Si

Disney-þemagarðinum í Sjanghæ var lokað í morgun vegna Covid-19. Gestum garðsins var tilkynnt að þeir fengju ekki að fara fyrr en þeir hefðu fengið neikvæðar niðurstöður úr skimun.

Stjórnendur garðsins sendu út frá sér tilkynningu rétt fyrir hádegi að staðartíma, um klukkan 3 í nótt að íslenskum tíma, um að garðinum yrði lokað og sömuleiðis nærliggjandi svæðum. Nær lokunin meðal annars til verslunargötu sem tengist garðinum.

Lokunina mætti rekja til takmarkana vegna Covid, sem stjórnendur garðsins þyrftu að fara yfir og sjá til þess að farið væri eftir.

Yfirvöld í Sjanghæ sögðu á WeChat að fólki væri bannað að fara inn og út úr garðinum og að allir gestir þyrftu að bíða eftir að fá neikvæðar niðurstöður úr Covid-skimun. Þá sagði að allir þeir sem hefðu heimsótt garðinn frá 27. október síðastliðnum þyrftu að taka þrjú Covid-próf á þremur dögum.

Ef marka má samfélagsmiðla var áfram opið í tækjum garðsins fyrir þá sem eru fastir inni.

Tíu hafa greinst með Covid-19 í Sjanghæ frá 30. október, allir einkennalausir. Stjórnvöld í Kína hafa hins vegar tekið mögulega útbreiðslu sjúkdómsins afar alvarlega og gripið til harkalegra aðgerða til að hefta hana.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×