Erlent

Minnst hundrað látnir eftir bílsprengjur í Mogadishu

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá vettvangi árásarinnar í Mogadishu.
Frá vettvangi árásarinnar í Mogadishu. AP/Farah Abdi Warsameh

Minnst hundrað eru látnir og þrjú hundruð særðir í Sómalíu eftir að tvær bílsprengjur voru sprengdar fyrir utan menntamálaráðuneytið í Mogadishu í gær. Forseti Sómalíu kennir hryðjuverkasamtökunum al Shabaab en samtökin hafa einnig lýst yfir ábyrgð á árásinni.

„Fólkinu okkar var slátrað. Þar á meðal mæðrum með börn þeirra í fanginu, feðrum í heilsuvanda, nemendum, viðskiptamönnum sem basla við að sjá fyrir fjölskyldum sínum,“ sagði Hassan Sheikh Mohamud, forseti Sómalíu, eftir að hann heimsótti vettvang árásarinnar í gær, samkvæmt Reuters.

Mohamud segir mögulegt að fjöldi látinna muni hækka og hefur hann kallað eftir því að bandamenn ríkisstjórnarinnar sendi lækna og aðstoð til Sómalíu vegna árásarinnar.

Fyrsta sprengingin sprakk á fjölmennum gatnamótum við ráðuneytið. Seinni bíllinn var sprengdur þegar sjúkrabílar voru komnir á vettvang of fjöldi fólks hafði komið saman til að hjálpa þeim sem særðust í fyrri sprengingunni.

Vígamenn al Shabaab stjórna stórum hlutum Sómalíu og gerir reglulega mannskæðar árásir í höfuðborginni. Samtökin lýsa yfirleitt ekki yfir ábyrgð á svo mannskæðum árásum.

Mannskæðasta sprengjuárásin í sögu Sómalíu var gerð á sama stað árið 2017. Þá dóu rúmlega fimm hundruð manns þegar sendiferðabíll hlaðinn sprengiefnum var sprengdur í loft upp fyrir utan hótel sem stendur við sömu gatnamót.

AP fréttaveitan hefur eftir meðlimum al Shabaab að menntamálaráðuneytið hafi verið gilt skotmark og lýsa því sem „herstöð“ þar sem unnið sé að því að fjarlæga börn Sómalíu frá íslamstrú.

Ríkisstjórn Sómalíu hefur að undanförnu staðið í umfangsmikilli sókn gegn al Shabaab sem sögð er hafa komið niður á fjármálum hryðjuverkasamtakanna. Undanfarin ár hafa Bandaríkjamenn gert fjölmargar loftárásir í Sómalíu sem beinast gegn al Shabaab. Bandaríkjamenn segja samtökin einhver þau skæðustu sem tengjast al Qaeda og hafa flutt hundruð hermanna til Sómalíu, eftir að Donald Trump, fyrrverandi forseti, kallaði þá heim.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×