Innlent

„Það er verið að sakfella saklausan mann“

Árni Sæberg og Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifa
Geir Gestsson er verjandi Murats Selivrada.
Geir Gestsson er verjandi Murats Selivrada. Vísir

Lögmaður Murats Selivrada, eins þeirra sem voru í dag sakfelld fyrir að hafa í félagi hvert við annað myrt Armando Beqirai, segir niðurstöðu Landsréttar vera mikil vonbrigði.

„Þetta er þannig að það er verið að sakfella saklausan mann og dæma hann í mjög þunga refsingu,“ segir Geir Gestsson, verjandi Murats, í samtali við fréttastofu skömmu eftir að dómur var kveðinn upp. Murat var í dag dæmdur til fjórtán ára fangelsisvistar ásamt þeim Claudiu Sofiu Coelho Carvalho og Shpetim Qerimi og Angjelin Sterkaj, sem dæmdur var til tuttugu ára fangelsisvistar.

„Mér finnst þetta ekki góður dagur fyrir íslenskt réttarkerfi. Mér finnst að kerfið hafi brugðist,“ segir Geir.

Handviss um að málið fari fyrir Hæstarétt

Geir segist fullviss um að mál fjórmenninganna verði tekið fyrir af Hæstarétti Íslands. Hann segist eiga eftir að lesa dóminn í heild sinni en að hann telji refsingu umbjóðanda síns með algjörum ólíkindum. Hann segist þó ekki endilega vera hissa á niðurstöðunni.

„Ég veit það auðvitað þegar ég fer fyrir Landsrétt að það getur brugðið til beggja vona og ég veit að dómsformaður í þessu máli, Símon Sigvaldason, er ekki þekktur beinlínis fyrir að sýkna. Svo ég get ekki sagt að þetta komi mér fullkomlega á óvart en auðvitað kemur árafjöldinn mér á óvart. Þetta er ótrúleg tala,“ segir Geir.

Fréttastofa hefur fjallað um dómstörf Símons Sigvaldasonar en hann hefur stundum verið kallaður „Símon grimmi“ af lögmönnum landsins. Árið 2012, þegar fréttastofa framkvæmdi athugun á héraðsdómaraferli Símons hafði hann aðeins sýknað í tveimur málum af síðustu þrjú hundruð og fjórum sakamálum sem hann hafði dæmt í. Sakfellingarhlutfallið hjá honum var því 99,4 prósent.

Í spilaranum hér að neðan má sjá viðtalið við Geir Gestsson í heild sinni:


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×