Fótbolti

Glódís og stöllur unnu dramatískan endurkomusigur í Íslendingaslag Meistaradeildarinnar

Sindri Sverrisson skrifar
Georgia Stanway tryggði gestunum dramatískan sigur.
Georgia Stanway tryggði gestunum dramatískan sigur. Gualter Fatia/Getty Images

Glódís Perla Viggósdóttir og stöllur hennar í þýska stórliðinu Bayern München unnu dramatískan 2-3 útisigur gegn Benfica í Meistaradeild Evrópu í kvöld. Cloé Eyja Lacasse, lagði upp og skoraði fyrir Benfica, en gestirnir snéru taflinu við á lokamínútunum.

Glódís Perla Viggósdóttir og stöllur hennar í þýska stórliðinu Bayern München unnu dramatískan 2-3 útisigur gegn Benfica í Meistaradeild Evrópu í kvöld. Cloé Eyja Lacasse, lagði upp og skoraði fyrir Benfica, en gestirnir snéru taflinu við á lokamínútunum.

Í röðum Benfica er framherjinn Cloé Eyja Lacasse, sem öðlaðist íslenskan ríkisborgararétt eftir að hafa búið hér um árabil og spilað með ÍBV. Hjá Bayern eru svo þrír Íslendingar, þó að ekki hafi þeir allir spilað í kvöld, en það eru þær Glódís Perla Viggósdóttir, Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Cecilía Rán Rúnarsdóttir.

Nycole Raysla kom heimakonum í Benfica yfir í leik kvöldsins með marki á 42. mínútu eftir stoðsendingu frá Cloé Eyju Lacasse.

Cloé Eyja var svo sjálf á ferðinni þegar hún tvöfaldaði forystu Benfica eftir um klukkutíma leik, en Maximiliane Rall minnkaði muninn fyrir Bayern átta mínútum síðar.

Georgia Stanway jafnaði svo metin fyrir gestina á 83. mínútu áður en Ana Vitoria misnotaði vítaspyrnu fyrir heimakonur á seinustu mínútu venjulegs leiktíma.

Það stefndi því allt í að liðin myndu skipta stigunum á milli sín, en Georgia Stanway var þó á öðru máli og tryggði gestunum dramatískan sigur með frábæru skoti fyrir utan teig á áttundu mínútu uppbótartíma.

Niðurstaðan því 2-3 sigur Bayern og liðið situr í öðru sæti D-riðils með sex stig eftir tvo leiki, líkt og Barcelona, en með verri markatölu. Benfica situr hins vegar í neðsta sæti riðilsins án stiga.

Leikurinn var í beinni útsendingu á Youtube-rás DAZN, en hægt er að horfa á leikinn í spilaranum hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×