Fótbolti

Aldrei fleiri táningar verið í einu og sama byrjunar­liðinu í Meistara­­deildinni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hákon Arnar Haraldsson var einn sex táninga í byrjunarliði FCK gegn Sevilla.
Hákon Arnar Haraldsson var einn sex táninga í byrjunarliði FCK gegn Sevilla. EPA-EFE/Julio Munoz

Ferð Íslendingaliðs FC Kaupmannahafnar til Andalúsíu var ekki til fjár en liðið tapaði 3-0 fyrir Sevilla og situr sem fastast á botni G-riðils Meistaradeildar Evrópu. Gestirnir frá Danmörku skráðu sig hins vegar á spjöld sögunnar þar sem alls voru sex táningar í byrjunarliðinu, þar af tveir frá Íslandi.

Mikil meiðsli herja á leikmannahóp Danmerkurmeistaranna þessa dagana og sást það bersýnilega á byrjunarliði liðsins gegn Sevilla sem og varamannabekk þess. Hákon Arnar Haraldsson og Ísak Bergmann Jóhannesson, báðir fæddir 2003, hafa spilað nokkuð stóra rullu á þessari leiktíð en þeir eru langt frá því einu táningarnir sem spila með liðinu.

Alls voru sex táningar í byrjunarliði FCK gegn Sevilla en aldrei hafa fleiri táningar verið í byrjunarliði í Meistaradeildinni. Metið átti Arsenal en liðið stillti upp fimm táningum í leik árið 2009.

Ásamt þeim Hákoni Arnari og Ísaki Bergmanni voru þeir William Clem [2004], Elias Jelert [2003], Valdemar Lund [2003] og Victor Kristiansen [2002] í byrjunarliði FCK gegn Sevilla.

Einnig komu tveir táningar inn af bekknum í leik gærkvöldsins. Framherjinn Orri Steinn Óskarsson (2004) fékk sínar fyrstu mínútur í Meistaradeildinni og þá kom ungstirnið Roony Bardghji (2005) einnig inn af bekknum.

Rætt verður við Orra Stein í kvöldfréttum Stöðvar 2 en hann er yngsti Íslendingurinn til að spila í Meistaradeild Evrópu. Lengri útgáfa af viðtalinu verður svo aðgengileg á Vísi síðar í kvöld.


Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.


Tengdar fréttir

Íslendingaliðið úr leik eftir tap á Spáni

Íslendingaliðið FC Kaupmannahöfn er úr leik í Meistaradeild Evrópu, en liðið mátti þola 3-0 tap gegn Sevilla í næst seinustu umferð G-riðils í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×