Fótbolti

Margfalt fleiri geta séð Sveindísi í kvöld

Sindri Sverrisson skrifar
Sveindís Jane Jónsdóttir lagði upp mark fyrir hina pólsku Ewu Pajor í Meistaradeildinni í síðustu viku.
Sveindís Jane Jónsdóttir lagði upp mark fyrir hina pólsku Ewu Pajor í Meistaradeildinni í síðustu viku. Getty/Cathrin Mueller

Eftir að hafa spilað fyrir framan 21.300 áhorfendur í toppslagnum gegn Bayern München um helgina eru Sveindís Jane Jónsdóttir og liðsfélagar hennar í Wolfsburg mættar til Prag til að spila í Meistaradeild Evrópu í kvöld.

Forráðamenn Slavia Prag ákváðu að færa leikinn við Wolfsburg frá sínum venjulega heimavelli og yfir á heimavöll karlaliðs félagsins, Eden Arena, sem rúmar yfir 20.000 áhorfendur eða margfalt fleiri en vanalegi heimavöllur kvennaliðsins. Einnig er hægt að horfa á leikinn eins og aðra leiki Meistaradeildarinnar, á Youtube-rás DAZN.

Sveindís kom inn á sem varamaður gegn Bayern á sunnudaginn. Hún var hins vegar í byrjunarliði Wolfsburg í fyrsta leiknum í Meistaradeildinni, í síðustu viku, og lagði upp mark í 4-0 sigri gegn St. Pölten.

PSG, lið Berglindar Bjargar Þorvaldsdóttur, spilar einnig í dag en liðið sækir Real Madrid heim í A-riðli. Englandsmeistarar Chelsea eru einnig í þeim riðli og ljóst að lítið má út af bregða hjá PSG sem tapaði 1-0 á heimavelli gegn Chelsea í fyrstu umferð, á meðan að Real vann 2-0 útisigur gegn Vllaznia í Albaníu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×