Leik lokið: Nott. For - Liverpool 1-0 | Liverpool slegið niður á jörðina á City Ground

Taiwo Awoniyi fagnar hér marki sínu sem hann skoraði í sigri Nottingham Forest gegn Liverpool í dag. 
Taiwo Awoniyi fagnar hér marki sínu sem hann skoraði í sigri Nottingham Forest gegn Liverpool í dag.  Vísir/Getty

Liverpool laut í lægra haldi með einu marki gegn engu þegar liðið heimsótti nýliða Nottingham Forest í hádegisleik ensku úrvalsdeildarinnar á City Ground í dag.

Liverpool hafði haft betur í síðustu þremur leikjum sínum fyrir viðureign liðanna en það var Taiwo Awoniyi sem var á mála hjá Liverpool frá 2015 til 2021, án þess þó að spila leik fyrir aðallið félagsins, sem skoraði sigurmark heimamanna. 

Virgil van Dijk fékk besta færi Liverpool til þess að jafna metin, í uppbótartíma leiksins, en Dean Henderson varði vel. Liverpool hefur ekki enn náð að fara með sigur af hólmi á útivelli í deildinni á þessari leiktíð. 

Þetta var annar sigur Nottingham Forest á leiktíðinni en liðið hefur níu stig í næstneðsta sæti deildarinnar. 

Liverpool er hins vegar í sjöunda sæti með 16 stig en liðið er 11 stigum á eftir Arsenal sem tróna á toppnum. 

Nottingham Forest hefur aldrei beðið lægri hlut fyrir Liverpool á heimavelli sínum frá stofnun ensku úrvalsdeildarinnar árið 1992 en þetta var sjötta rimma liðanna á City Ground frá þeim tíma. 

City Ground er eini völlurinn þar sem Liveprool hefur ekki náð að bera sigur úr býtum í deildinni. Liðinu tókst ekki að gera það í dag þrátt fyrir að vera heilt yfir mun sterkari aðilinn í leiknum. 

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.