Fótbolti

Ronaldo settur utan hóps eftir að hafa strunsað inn í klefa

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Cristiano Ronaldo hefur engan húmor fyrir því að þurfa að sitja á bekknum.
Cristiano Ronaldo hefur engan húmor fyrir því að þurfa að sitja á bekknum. Laurence Griffiths/Getty Images

Portúgalska knattspyrnustjarnan Cristiano Ronaldo verður ekki í leikmannahóp Manchester United er liðið heimsækir Chelsea í ensku úrvalsdeildinni næstkomandi laugardag.

Ronaldo var ónotaðir varamaður er United vann góðan 2-0 sigur gegn Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöldi. Portúgalinn strunsaði inn í klefa áður en flautað var til leiksloka og virtist heldur ósáttur við það að fá ekki að taka þátt í leiknum.

Enska úrvalsdeildarfélagið Manchester United sendi svo frá sér tilkynningu fyrr í dag þar sem kom fram að Ronaldo myndi ekki ferðast með liðinu til Lundúna til að taka þátt í leiknum gegn Chelsea.

„Aðrir í liðinu eru á fullu að undirbúa sig fyrir næsta leik og einbeita sér að því,“ sagði meðal annars í tilkynningu félagsins.

Þrátt fyrir þetta kemur einnig fram að hinn 37 ára gamli Ronaldo sé enn mikilvægur hluti af liðinu. Eins og áður segir gekk Ronaldo af velli áður en flautað var til leiksloka og tók því engan þátt í fagnaðarlátum liðsfélaga sinna inni á vellinum að leik loknum.

Þá greina hinir ýmsu miðlar frá því að Ronaldo hafi einfaldlega neitað að koma inn á undir lok leiks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×