Fótbolti

Xavi skilur ekki af hverju Barca fólkið púar á Pique

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Xavi Hernandez gefur Gerard Pique skilaboð í Evrópuleik þar sem miðvörðurinn bar fyrirliðabandið.
Xavi Hernandez gefur Gerard Pique skilaboð í Evrópuleik þar sem miðvörðurinn bar fyrirliðabandið. Getty/Pedro Salado

Þjálfari Barcelona, Xavi Hernandez, er ein mesta goðsögnin í sögu félagsins frá einstökum tímum sínum sem leikmaður liðsins. Hann er gapandi yfir meðferðinni sem önnur goðsögn félagsins er að fá þessa dagana.

Barcelona rétti aðeins úr kútnum með 3-0 sigri á Villarreal í spænsku deildinni í gær.

Á 78. mínútu leiksins kom hinn 35 ára gamli Gerard Pique inn á sem varamaður fyrir Jules Kounde. Margir stuðningsmenn Barcelona tóku þá upp á því að púa á Pique.

Annar hluti vallarins reyndi að grípa inn og hylla miðvörðinn og fögnuðu þau í hvert skipti sem hann fékk boltann.

„Ég bað um samstöðu á undirbúningstímabilinu. Nú er tími til að standa saman og þá er ég að tala um liðið, starfsmennina, stjórnina, stuðningmennina og fjölmiðlana,“ sagði Xavi á blaðamannafundi eftir leikinn.

„Hvort sem hann spilar eða ekki þá er það eina sem ég bið Pique um að hann sé fyrirmynd í klefanum. Hann er skínandi fyrirmynd,“ sagði Xavi.

„Ég er að tala um þetta því hann á það skilið. Hann hefur aldrei sýnt slæmt hugarfar þegar hann fær ekki að spila. Hann er fyrirmynd sem fyrirliði og stuðningsmennirnir ættu að vita það,“ sagði Xavi.

Pique hefur verið fastamaður í vörn Barcelona liðsins síðan að hann kom frá Manchester United árið 2008. Hann hefur unnið átta spænska meistaratitla með félaginu og Meistaradeildina þrisvar sinnum.

Hann missti sætið sitt í liðinu á þessu tímabili og hefur aðeins byrjað fjóra af fjórtán leikjum í öllum keppnum.

Hans mistök leiddu af sér tvö mörk í 3-3 jafntefli á móti Internazionale í Meistaradeildinni en þau úrslit fóru langt með að kosta spænska liðið sæti í sextán liða úrslitunum.

„Ég veit það ekki og hef ekki áhuga á því. Hann er frábær fyrirmynd fyrir allan klefann og æfir mjög vel. Það er jákvætt,“ sagði Xavi þegar hann var spurður um það hvort stuðningsmennirnir væru að púa á vegna mistakanna á móti Inter.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×