Fótbolti

Cour­tois mark­vörður ársins | Gavi besti ungi leik­maðurinn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Thibaut Courtois og Gavi hlutu verðlaun í kvöld.
Thibaut Courtois og Gavi hlutu verðlaun í kvöld. EPA-EFE/Getty Images

Karim Benzema og Alexia Putellas hlutu í kvöld Gullboltann, Ballon d'Or. Einnig var opinberað hver var kosinn besti ungi leikmaður heims, hver væri markvörður og framherji ársins sem og hvað væri félag ársins. Aðeins á þetta þó við um karla megin þar sem slík verðlaun eru ekki enn veitt í kvennaflokki.

Thibaut Courtois, markvörður Spánar- og Evrópumeistara Real Madríd, var valinn markvörður ársins. Hann var hreint út sagt stórkostlegur þegar Real lagði Liverpool 1-0 í úrslitum Meistaradeildar Evrópu og tryggði sér sinn 14. Evróputitil. Courtois endaði í 7. sæti í kosningunn um Gullboltann.

Á eftir belgíska markverðinum komu Brasilíumennirnir Alisson Becker [Liverpool] og Ederson ]Manchester City].

Robert Lewandowski var valinn framherji ársins. Lewandowski var frábær í liði Bayern München á síðustu leiktíð þegar liðið vann þýsku úrvalsdeildina með yfirburðum. Þar skoraði Lewandowski 35 mörk í 34 leikjum ásamt því að leggja upp tvo til viðbótar. Bæjarar duttu hins vegar mjög svo óvænt út gegn Villareal í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. 

Lewandowski skoraði 13 mörk í tíu leikjum í keppninni ásamt því að gefa tvær stoðsendingar. Framherjinn spilar fyrir Barcelona á Spáni í dag og hefur skorað 14 mörk í 13 leikjum ásamt því að gefa þrjár stoðsendingar. Lewandowski endaði í 4. sæti í kosningunni um Gullboltann.

Hinn 18 ára gamli Pablo Martín Páez Gavira, betur þekktur sem Gavi, hlaut Kopa verðlaunin í ár en þau hlýtur besti ungi leikmaðurinn ár hvert. Samherji hans hjá Barcelona, Pedri, hlaut verðlaunin á síðustu leiktíð. 

Þá var Manchester City valið félag ársins. Liðið varð Englandsmeistari ásamt því að fara alla leið í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu þar sem það beið lægri hlut gegn Real Madrid.


Tengdar fréttir

Put­ellas hlaut Gull­boltann annað árið í röð

Alexia Putellas, miðjumaður Barcelona, hlaut í kvöld Gullboltann, Ballon d'Or. Hún vann einnig í fyrra og hefur því unnið verðlaunin alls tvisvar en þau hafa aðeins verið gefin þrívegis í kvennaflokki.

Benzema hlaut Gull­boltann

Karim Benzema, framherji Real Madríd, hlaut í kvöld Gullboltann, Ballon d'Or. Hann spilaði risastóran þátt í frábæru gengi Real á síðustu leiktíð þegar liðið varð bæði Spánar- og Evrópumeistari. Er þetta í fyrsta sinn sem hann hlýtur verðlaunin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×