Fótbolti

Put­ellas hlaut Gull­boltann annað árið í röð

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Alexia Putellas, besta knattspyrnukona í heimi.
Alexia Putellas, besta knattspyrnukona í heimi. UEFA

Alexia Putellas, miðjumaður Barcelona, hlaut í kvöld Gullboltann, Ballon d'Or. Hún vann einnig í fyrra og hefur því unnið verðlaunin alls tvisvar en þau hafa aðeins verið gefin þrívegis í kvennaflokki.

Hin 28 ára gamla Putellas átti frábært tímabil með Barcelona á síðustu leiktíð þar sem liðið var hársbreidd frá því að vinna þrennuna annað árið í röð. Ógnarsterkt lið Barcelona vann alla leiki sína í La Liga, spænsku úrvalsdeildinni, og komst í úrslit Meistaradeildar Evrópu þar sem það beið lægri hlut gegn Lyon.

Putellas er prímusmótorinn í stórbrotni liði Börsunga og er erfitt að finna orð til að lýsa hæfileikum hennar á knattspyrnuvellinum. Hún spilar vanalega sem djúpur miðjumaður og er algjör lykill í öllu uppspili liðsins en að sama skapi skilar hún sér reglulega í teig andstæðinganna og skorar óhemju mikið af mörkum miðað við hvar hún spilar á vellinum.

Putellas varð fyrir því óláni að slíta krossband í aðdraganda Evrópumótsins í sumar og var því ekki með á mótinu. Spánn datt út fyrir verðandi Evrópumeisturum Englands í átta liða úrslitum en leikurinn fór alla leið í framlengingu. Hver veit hvað hefði gerst hefði Putellas verið með.

Í öðru sæti var Evrópumeistarinn Beth Mead, leikmaður Arsenal og þar á eftir kom Englandsmeistarinn Sam Kerr, leikmaður Chelsea.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×