Erlent

Maxwell segist víst hafa verið góð vinkona Andrésar prins

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Maxwell, til hægri, ásamt Jeffrey Epstein.
Maxwell, til hægri, ásamt Jeffrey Epstein. GETTY/JOE SCHILDHORN

Ghislaine Maxwell, sem afplánar nú 20 ára fangelsisdóm fyrir að hafa aðstoðað barnaníðinginn Jeffrey Epstein við að finna og tæla unglingsstúlkur, segist kenna í brjósti um Andrés, bróður Karls III Bretakonungs. Hún segir jafnframt að þau hafi verið góðir vinir, þvert á það sem Andrés heldur fram.

Maxwell veitti á dögunum sitt fyrsta viðtal úr FCI Tallahassee-fangelsinu í Flórída, þegar hún ræddi við heimildamyndarmyndasmiðinn Daphne Barak. Þar ræddi hún meðal annars um samband sitt við Andrés , sem var sviptur öllum konunglegum titlum sínum eftir að upp komst um tengsl hans við Epstein, sem svipti sig lífi í fangaklefa í New York árið 2019.

„Ég vorkenni honum mikið. Ég fylgist vel með því sem hann hefur lent í,“ sagði Maxwell meðal annars. Hún er sögð hafa virst nokkuð forviða þegar henni var tjáð að lögmenn Andrésar hafi haldið því fram að þau tvö hafi aldrei átt í sérlega nánu vinasambandi. 

Andrés hefur ítrekað haldið því fram að hafa ekki tengst Maxwell sérlega mikið. Hún heldur öðru fram.EPA

„Ég skil að vinskapur okkar gat ekki lifað af dóminn sem ég hlaut. Hann er að gjalda þess að tengjast mér. En ég lít á hann sem kæran vin. Mér þykir vænt um hann.“

Samkvæmt Guardian munu ummæli Maxwell koma sér illa fyrir Andrés, sem hefur ítrekað haldið því fram að þau hafi ekki tengst jafn mikið og haldið hefði verið fram í fjölmiðlum. Hin sextuga Maxwell hefur alltaf hafnað ásökununum á hendur sér.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×