Fótbolti

Hamrén hafði betur gegn Frey

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Freyr og Hamrén á góðri stundu.
Freyr og Hamrén á góðri stundu. VÍSIR/VILHELM

Erik Hamrén hafði betur gegn Frey Alexanderssyni er lið þeirra, Álaborg og Lyngby, mættust í dönsku úrvalsdeildinni í kvöld. Álaborg vann 2-0 sigur sem þýðir að liðið er nú níu stigum á undan Lyngby sem situr á botni deildarinnar.

Hinn sænski Hamrén og Freyr þjálfuðu íslenska landsliðið saman frá árinu 2018 til 2022. Hamrén tók við stjórnartaumum Álaborgar nýverið eftir að hafa gert góða hluti með liðið frá 2004 til 2008.

Um sannkallaðan sex stiga leik var að ræða í kvöld þar sem liðin sitja í tveimur neðstu sætunum. Lyngby varð fyrir áfalli á dögunum þegar Alfreð Finnbogason viðbeinsbrotnaði en hann verður frá keppni þangað til á nýju ári.

Lyngby hefur átt erfitt með að skora mörk og það hélt áfram í kvöld. Younes Bakiz skoraði bæði mörk Álaborgar, eitt í sitthvorum hálfleik, og tryggði gestunum 2-0 sigur. Sævar Atli Magnússon, framherji Lyngby, spilaði síðasta hálftímann og kom boltanum tvisvar í netið en í bæði skiptin voru mörkin dæmd af.

Lyngby er því áfram á botni dönsku úrvalsdeildarinnar með aðeins fimm stig að loknum 13 leikjum, markatalan er 12-25. Álaborg er með 14 stig í 11. sæti og þar fyrir ofan eru OB, Bröndby og AC Horsens með 15 stig hvort en öll eiga leik til góða.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×