Hákon lenti á Keflavíkurflugvelli fyrr í dag þar sem Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, tók á móti honum.
Saman ganga þeir nú í átt að gosstöðvunum við Fagradalsfjall ásamt landverði og Kristínu Jónsdóttur, eldfjallafræðingi, sem fræðir Hákon og Guðna um eldvirkni Reykjanesskaga.
Að lokinni göngu bjóða forsetahjónin til kvöldverðar fyrir krónprinsinn og fylgdarlið á Bessastöðum. Á morgun hefst svo Hringborð norðurslóða þar sem Hákon flytur ávarp við opnunarathöfnina og tekur þátt í dagskrá.
Guðni var í gær staddur í Portúgal til að fylgjast með íslenska kvennalandsliðinu í fótbolta spila umspilsleik um sæti á HM. Íslensku stelpurnar töpuðu þeim leik 4-1 gegn heimakonum.
Forsetinn flaug beint aftur til Íslands að leik loknum og lenti á Keflavíkurflugvelli klukkan rúmlega tvö í nótt. Tæpum tíu tímum síðar var hann mættur aftur á flugvöllinn.