Fótbolti

Portúgal komst ekki á HM

Sindri Sverrisson skrifar
Portúgal fagnaði vel í kvöld en þarf að fara í aukaumspil til að komast á HM.
Portúgal fagnaði vel í kvöld en þarf að fara í aukaumspil til að komast á HM. Getty

Þrátt fyrir sigurinn gegn Íslandi í kvöld er portúgalska kvennalandsliðið í fótbolta síður en svo komið með öruggt sæti á HM í Eyjaálfu næsta sumar.

Portúgal þarf að bíta í það súra epli að fara í sérstakt aukaumspil í febrúar, í Nýja-Sjálandi, með liðum úr öðrum heimsálfum. Þar verður barist um síðustu þrjú sætin sem í boði eru á HM, nú þegar 29 þjóðir hafa tryggt sér þar sæti.

Þetta er vegna þess að aðeins tvö af þremur liðum sem unnu einvígin í umspilinu í Evrópu gátu fengið öruggt sæti á HM en eitt liðið, það með lakastan samanlagðan stigafjölda úr undankeppni HM og umspilinu, þurfti að fara sem fulltrúi Evrópu í aukaumspilið.

Portúgal þurfti því að treysta á hagstæð úrslit í hinum tveimur umspilsleikjunum í kvöld en varð ekki að ósk sinni því Írland vann Skotland og Sviss vann Wales. Sviss endaði með 22 stig og Írland 20, en Portúgal aðeins 19, í þessari baráttu um að verða ekki þriðja liðið og þurfa að fara í aukaumspil.

Ef að Ísland hefði unnið í kvöld, í venjulegum leiktíma eða framlengingu, hefði liðið komist beint á HM en hefði liðið unnið í vítaspyrnukeppni hefði sigurinn aðeins gilt sem eitt stig og Ísland þurft að fara í aukaumspilið í febrúar, sem þó væri mikið betri niðurstaða en sú sem raunin varð í kvöld.

Auk Portúgals spila í aukaumspilinu Kínverska Taípei, Taíland, Kamerún, Senegal, Haítí, Panama, Síle, Paragvæ og Papúa Nýja Gínea, og ættu möguleikar Portúgals á að komast á HM að vera mjög góðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×