Innlent

Milda refsingu fyrir líkams­á­rás gegn eigin­konu sinni

Bjarki Sigurðsson skrifar
Hæstiréttur mildaði fangelsisdóm mannsins um tvö ár.
Hæstiréttur mildaði fangelsisdóm mannsins um tvö ár. Vísir/Vilhelm

Dómur karlmanns sem dæmdur var í sex ára fangelsi í Landsrétti í febrúar á þessu ári fyrir tilraun til manndráps var í dag mildaður um tvö ár fyrir Hæstarétti. Hæstiréttur heimfærði brotið undir stórfellda líkamsárás.

Maðurinn var upphaflega dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur í 2,5 árs fangelsi fyrir að stórfellda líkamsárás gegn eiginkonu sinni. Árásin átti sér stað á Hótel Borg í Reykjavík í janúar á síðasta ári. Hann hafði verið ákærður fyrir tilraun til manndráps en héraðsdómur sýknaði hann af þeirri ákæru.

Maðurinn hafði ráðist á eiginkonu sína og ógnað lífi hennar, heilsu og velferð með því að stappa ítrekað á hægri hlið líkama hennar. Konan hlaut mörg rifbeinsbrot, mar á lifur, áverkaloftbrjóst, áverkahúðbeðsþembu, mar á lunga og áverkafleðruholsblæðingu.

Dómi héraðsdóms var skotið til Landsréttar þar sem hann var sakfelldur fyrir tilraun til manndráps og dæmdur í sex ára fangelsi. Landsréttur vísaði til þess að hending ein hafi ráðið því að árásin hafi ekki verið lífshættuleg, atlaga hans hafi verið ofsafengin og hún falið í sér síendurtekin högg.

Í maí á þessu ári hlaut maðurinn áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar og kvað dómurinn upp dóm sinn fyrr í dag. Þar var maðurinn dæmdur í fjögurra ára fangelsi. Þá þarf hann að greiða fórnarlambi sínu þrjár milljónir króna í skaðabætur.

Dóm Hæstaréttar má lesa í heild sinni hér.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×