Innlent

Fær að á­frýja sex ára dómi fyrir til­raun til mann­dráps

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Hæstiréttur Íslands
Hæstiréttur Íslands

Karlmaður sem dæmdur var í sex ára fangelsi í Landsrétti fyrir tilraun til manndráps á Hótel Borg í janúar í fyrra hefur fengið leyfi til að áfrýja málinu til Hæstaréttar.

Karlmaðurinn var ákærður fyrir tilraun til manndráps og stórfellt brot í nánu sambandi. Í ákærunni kom fram að hann hefði veist að eiginkonu sinni á hótelinu, ógnað lífi hennar og velferð með því að stappa ítrekað á hægri hlið líkama hennar.

Héraðsdómur sakfelldi manninn fyrir stórfellda líkamsárás en sýknaði af ákæru fyrir tilraun til manndráps. Landsréttur var á öðru máli, sakfelldi hann fyrir tilraun til manndráps og þyngdi dóminn í sex ára fangelsi.

Í dómi Landsréttar var vísað til þess að hending ein hafi ráðið því að árásin hafi ekki verið lífshættuleg, atlaga hans hafi verið ofsafengin og hún hafi falið í sér síendurtekin högg. Af þeim sökum var lagt til grundvallar að honum hafi ekki getað dulist að bani gæti hlotist af hinni ofsafengnu atlögu sem hann gerði að eiginkonu sinni.

Ákæruvaldið lagðist gegn beiðninni

Maðurinn óskaði eftir leyfi frá Hæstarétti til að áfrýja dómi Landsréttar. Varð rétturinn við þeirri beiðni í gær.

Í málskotsbeiðni mannsins til Hæstaréttar, sem ákæruvaldið lagðist gegn, var vísað í 215. grein laga um meðferð sakamála, þar sem fram kemur meðal annars að hafi ákærði verið sýknaður af ákæruefni í héraðsdómi en sakfelldur fyrir Landsrétti skuli verða við ósk hans eða ákæruvaldsins um áfrýjunarleyfi, nema Hæstiréttur telji ljóst að áfrýjun muni ekki verða til þess að breyta dómi Landsréttar.

Þá taldi maðurinn einnig að niðurstaða Landsréttar hafi verið röng, árásin hafi hvorki verið nægilega alvarleg til að heimfærð undir ákvæði laga um tilraun til mánndráps né liggi fyrir sönnun um ásetning hans til manndráps.

Í niðurstöðu Hæstaréttar segir að telja verði að úrlausn málsins, meðal annars um heimfærslu mannsins til refsiákvæða, kunni að hafa verulega almenna þýðingu. Jafnframt sé haft í huga að maðurinn var sakfelldur fyrir tilraun til manndráps í Landsrétti en hafði verið sýknaður af því broti í héraði.

Beiðnin var því samþykkt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×