Fótbolti

Messi segir að HM í Katar verði „örugglega hans seinasta“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Lionel Messi fær líklega bara einn séns í viðbót til að verða heimsmeistari.
Lionel Messi fær líklega bara einn séns í viðbót til að verða heimsmeistari. Elsa/Getty Images

Argentínumaðurinn Lionel Messi, einn besti knattspyrnumaður sögunnar, segir að heimsmeistaramótið í Katar sem hefst í næsta mánuði verði örugglega hans seinasta á ferlinum.

Þessi 35 ára leikmaður Paris Saint-Germain hefur leikið á fjórum heimsmeistaramótum með argentínska landsliðinu. Á þessum fjórum mótum hefur Messi skorað sex mörk og lagt upp önnurfimm fyrir liðsfélaga sína.

Hans besti árangur á heimsmeistaramóti er annað sæti árið 2014 þar sem liðið tapaði gegn Þjóðverjum í framlengdum úrslitaleik. Eftir að Argentínumenn tryggðu sér sigur í Copa América árið 2021 er heimsmeistaratitillinn sá eini sem Messi vantar í ótrúlegt titlasafn sitt.

„Þetta verður örugglega mitt seinasta HM,“ sagði Messi í samtali við ESPN.

„Ég tel niður dagana að heimsmeistaramótinu. Það er bæði stress og spenna á sama tíma sem fylgir þessu. Maður vill að þetta sé að byrja núna, veltir fyrir sér hvað muni gerast og hvernig muni ganga.“

„Á HM getur allt gerst. Allir leikir eru erfiðir.Þeir sem eru taldir sigurstranglegastir vinna ekki alltaf,“ bætti Messi við.

„Ég veit ekki hvort við séum taldir sigurstranglegastir, en Argentína á alltaf möguleika vegna sögunnar. Jafnvel meiri möguleika núna vegna þess hversu vel hefur gengið, en við erum ekki sigurstranglegastir. Ég held að það séu önnur lið fyrir ofan okkur.“

Messi á að baki 164 leiki fyrir argentínska landsliðið þar sem hann hefur skorað 90 mörk. Liðið situr í þriðja sæti styrkleikalista FIFA og mætir Sádí-Arabíu, Mexíkó og Póllandi í C-riðli heimsmeistaramótsins sem hefst þann 20 nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×