Innlent

Dæmd fyrir hundruð þúsunda króna strikamerkjasvindl

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Verslun Ikea í Garðabæ.
Verslun Ikea í Garðabæ. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt konu og karl í sextíu daga og þrjátíu daga fangelsi fyrir að hafa stolið vörum úr verslun Ikea í Garðabæ með því að hafa tekið strikamerki af ódýrari vörum og sett á dýrari vörur.

Dómur í málinu féll í síðustu viku. Í dómi héraðsdóms má lesa að konan virðist hafa verið öllu stórtækari en karlinn. Saman voru þau ákærð fyrir að hafa, í tvö skipti, samtals svikið út vörur fyrir 198.805 krónur.

Það gerðu þau með því að koma strikamerkjum ódýrari vara fyrir á vörunum sem þau afgreiddu sig sjálf um á sjálfsafgreiðslukassa verslunarinnar. Þannig greiddu þau aðeins 11.270 krónur fyrir vörurnar, sem voru sem fyrr segir virði 198.805 króna. Um var að ræða lampa, pönnur, gardínur, skápa, og handlaugar svo dæmi séu tekin

IKEA í Garðabæ.Vísir/Vilhelm

Eiginkonan var einnig ákærð fyrir samskonar fjársvik í fjórum öðrum tilvikum en brotin öll áttu sér stað skömmu fyrir og eftir síðustu áramót.

Var konunni gefið að sök að hafa svikið út vörur í þessi fjögur skipti fyrir samtals 158.595 krónur, með sama hætti og greint var frá hér að ofan. Alls greiddi konan 26.410 krónur fyrir vörurnar. Var um að ræða veggljós, handklæði, loftljós, sæng, kodda og teppi, svo dæmi séu tekin.

Játuðu sök

Svipar aðferðinni sem hjónin beittu við þjófnaðinn til þeirrar aðferðar sem var notuð í Ikea-málinu svokallaða árið 2013, þar sem nokkrum einstaklingum var gefið að sök að hafa fært strikamerki af ódýrari vörum yfir á dýrari vörur.

Hjónin játuðu sök fyrir dómi og var tekið tillit til þess við ákvörðun refsingar að því er fram kemur í dómi héraðsdóms. Þá var einnig litið til þess að hvorugt þeirra hafi áður sætt refsingu.

Var eiginkonan dæmd í sextíu daga fangelsi en eiginmaðurinn í þrjátíu daga fangelsi. Dómarnir falla niður haldi þau almennt skilorð í tvö ár.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×