Þetta kemur fram í samantekt forsætisráðuneytisins yfir flutning embættismanna á umræddu tímabili og voru niðurstöður birtar á vef ráðuneytisins í gær. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ákvað að ráðist yrði í gerð samantektarinnar í kjölfar umdeildrar ákvörðunar Lilju Alfreðsdóttur menningarmálaráðherra að flytja Hörpu Þórsdóttur úr embætti safnstjóra Listasafns Íslands í embætti þjóðminjavarðar eftir að sú staða losnaði.
334 embættisskipanir
Samantektin nær til 334 embættisskipana, en af þeim voru 267 gerðar í kjölfar auglýsingar en í 67 tilfellum var embættismaður fluttur í annað embætti. Í 39 tilfellum af 67 þar sem embættismaður var fluttur í annað embætti, var það gert í tengslum við breytingar á skipulagi stofnana eða ráðuneyta.
„Í samantektinni var embættum skipt í þrjá flokka; ráðuneytisstjóra, skrifstofustjóra í ráðuneytum og aðra embættismenn. Hlutföll milli skipunar í embætti í kjölfar auglýsingar og í kjölfar flutnings eru mismunandi milli tegunda embætta. Hlutfallslega flestir flutningar áttu sér stað þegar skipað var í embætti ráðuneytisstjóra. Alls voru átta ráðuneytisstjórar skipaðir í kjölfar auglýsingar á tímabilinu en ellefu embættismenn voru fluttir í embætti ráðuneytisstjóra. Tveir af þeim flutningum voru gerðir á grundvelli breytinga á skipan ráðuneyta.

Tæplega tveir af hverjum þremur skrifstofustjórum í ráðuneytum hafa verið skipaðir í kjölfar auglýsingar. Hins vegar var flutningur 30 skrifstofustjóra af 38 gerður í tengslum við breytingar á skipan ráðuneyta eða breytinga á innra skipulagi ráðuneyta. Séu þau tilvik dregin frá hafa tæplega 89% skipana skrifstofustjóra í embætti verið gerðar í kjölfar auglýsingar.

Tæplega 92% annarra embættismanna hafa á tímabilinu verið skipaðir í kjölfar auglýsingar. Í 7 af þeim 18 tilfellum þar sem aðrir embættismenn voru fluttir milli embætta var sá flutningur gerður í tengslum við breytingar á skipulagi stofnana. Í flestum tilvikum var um að ræða flutningsheimild í lögum vegna sameiningar stofnana. Sé litið fram hjá þeim tilvikum er hlutfall skipunar í embætti í kjölfar auglýsingar tæplega 95%.

Í samantektinni er ekki að finna upplýsingar um lögreglumenn en afstaða dómsmálaráðuneytisins er sú að almennt komi ekki til skoðunar að flytja lögreglumenn milli starfsstiga án auglýsingar, nema uppi séu sérstakar aðstæður. Þá var sérstakri flutningsheimild í lögum beitt við endurskipulagningu á embættaskipan lögreglu og sýslumanna 2015 en þá fækkaði m.a. sýslumannsumdæmum úr 24 í 9. Þá var ekki kallað eftir upplýsingum um skipanir dómara í samantekt forsætisráðuneytisins,“ segir á vef forsætisráðuneytisins.