Fótbolti

Kristian tryggði Jong Ajax stig með frábæru marki: Myndband

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Kristian Nökkvi Hlynsson skoraði frábært mark fyrir Jong Ajax í kvöld.
Kristian Nökkvi Hlynsson skoraði frábært mark fyrir Jong Ajax í kvöld. Joris Verwijst/Orange Pictures/BSR Agency/Getty Images

Kristian Nökkvi Hlynsson reyndist hetja Jong Ajax er liðið heimsótti Zwolle í hollensku B-deildinni í knattspyrnu í kvöld. Kristian jafnaði metin í 1-1 þegar um tíu mínútur voru eftir af leiknum, en markið var af dýrari gerðinni.

Heimamenn í Zwolle þurftu að spila stærstan hluta leiksins manni færri eftir að Jasper Schendelaar fékk að lít beint rautt spjald strax á 12. mínútu leiksins.

Þrátt fyrir liðsmuninn náðu heimamenn forystunni eftir rúmlega klukkutíma leik og lengi vel leit út fyrir að Zwolle myndi klára leikinn.

Þegar um tíu mínútur voru til leiksloka tók Kristian Nökkvi Hlynsson málin þó í sínar hendur. Kristian fékk boltann á miðjum vallarhelmingi heimamanna, tölti í átt að teignum og lét svo vaða af um 25 metra færi. Boltinn sveif fallega í átt að fjærhorninu og datt svo skemmtilega niður áður en hann söng í netinu.

Niðurstaðan því 1-1 jafntefli og Kristian og félagar sáu til þess að Zwolle mistókst að endurheimta toppsæti hollensku B-deildarinnar. Mark Kristians má sjá í Twitter-færslunni hér fyrir neðan.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.