Umfjöllun: Stjarnan - Keflavík 4-0 | Stjarnan tryggði Evrópusætið og Jasmín tryggði gullskóinn

Sindri Már Fannarsson skrifar
Jasmín Erla Ingadóttir og stöllur hennar í Stjörnunni tryggðu sér Evrópusæti í dag og Jasmín tryggði sér markadrottningatitilinn.
Jasmín Erla Ingadóttir og stöllur hennar í Stjörnunni tryggðu sér Evrópusæti í dag og Jasmín tryggði sér markadrottningatitilinn. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Stjarnan tryggði sér annað sæti Bestu-deildar kvenna og þar með sæti í forkeppni Meistaradeildar Evrópu þegar liðið vann öruggan 4-0 sigur gegn Keflavík í lokaumferð deildarinnar í dag. Katrína Ásbjörnsdóttir skoraði þrennu fyrir heimakonur og Jasmín Erla Ingadóttir tryggði sér gullskó Bestu-deildarinnar þegar hún gulltryggði sigurinn.

Stjörnukonur voru mun betri í leik dagsins frá upphafi til enda. Liðið sótti stíft að marki Keflvíkinga og það skilaði loksins marki á 21. mínútu þegar Aníta Ýr Þorvaldsdóttir spólaði sig í gegnum vörn gestanna og skaut að marki. Samantha Murphy varði frá Anítu, en Katrín Ásbjönrsdóttir tók frákastið og skoraði í autt markið.

Uppskriftin að öðru marki Stjörnunnar var svipuð og af því fyrsta þar sem Aníta spólaði sig í gegnum vörn gestanna og vippaði boltanum svo skepptilega fyrir markið þar sem Katrín var mætt til að hjálpa boltanum yfir línuna og staðan því 2-0 í hálfleik.

Stjörnukonur voru ekkert að breyta út af vananum í þriðja marki sínu, enda þarf ekki að laga það sem ekki er bilað. Aníta tók á rás og spólaði sig enn eina ferðina í gegnum vörn gestanna og skaut að marki. Samantha varði frá henni, en Katrín var mætt eins og gammur að hirða frákastið og skoraði í autt markið. Staðan orðin 3-0, Katrín með þrennu og Aníta með stoðsendingaþrennu.

Þegar um stundarfjórðungur var eftir af leiknum var svo komið að markadrottningu Íslandsmótsins. Jasmín Erla Ingadóttir skaut að marki og boltinn hafði viðkomu í varnarmanni og sláni á leið sinni í markið. Ellefta mark hennar á tímabilinu og gullskórinn tryggður.

Ekki urðu mörkin fleiri í leiknum og niðurstaðan því öruggur 4-0 sigur Stjörnunnar. Stjarnan endar því tímabilið í öðru sæti deildarinnar og er á leið í forkeppni Meistaradeildar Evrópu, en Keflvíkingar sitja sem fastast í áttunda sæti.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira