Fótbolti

Leikmaður Bayern leitaði til óperusöngvara

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dayot Upamecano fór óvenjulega leið á undirbúningstímabilinu.
Dayot Upamecano fór óvenjulega leið á undirbúningstímabilinu. getty/Arthur Thill

Þekkt er að fótboltamenn leiti til styrktarþjálfara, næringarfræðinga, sálfræðinga og jafnvel töfralækna til að hjálpa sér að ná hámarksárangri inni á vellinum. En þeir eru ekki margir sem hafa notið aðstoðar óperusöngvara.

Dayot Upamecano, varnarmaður Bayern München, fór samt þessa óvenjulegu leið til að bæta frammistöðu sína. Hann átti erfitt uppdráttar á sínu fyrsta tímabili hjá Bayern og eitt af því sem truflaði hann var verkur í raddböndum, bæði fyrir leiki og í lok þeirra.

Frakkinn leitaði því til óperusöngvara frá Leipzig. Hann kenndi Upamecano að beita röddinni rétt og þar með forðast verkinn í raddböndunum sem plagaði hann.

Bayern keypti Upamecano frá RB Leipzig í fyrra. Hann hefur leikið 48 leiki fyrir Bæjara og skorað eitt mark. Upamecano varð þýskur meistari með Bayern á síðasta tímabili.

Hinn 23 ára Upamecano hefur leikið sjö leiki fyrir franska landsliðið og skorað eitt mark.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×