Fótbolti

Af hverju er Messi kallaður Mörðurinn?

Sindri Sverrisson skrifar
Lionel Messi fagnar seinn marki sínu gegn Hondúras um helgina.
Lionel Messi fagnar seinn marki sínu gegn Hondúras um helgina. Getty/Peter Joneleit

Knattspyrnugoðsögnin Lionel Messi virðist vera komin með nýtt gælunafn hjá félögum sínum í argentínska landsliðinu en gælunafnið verður að teljast ansi óvenjulegt.

Messi hefur í vikunni verið kallaður „Mörðurinn“ af tveimur liðsfélögum sínum í argentínska landsliðinu. Fjölmiðlar sem fjallað hafa um málið segja ástæðuna ekki kunna en spænska blaðið Marca segir orðróm um að hún tengist ákveðnum líkamshluta argentínsku stjörnunnar sem ekki þyki í venjulegri stærð.

Ef til vill fást betri skýringar eftir leik Argentínu í kvöld þegar liðið mætir lærisveinum Heimis Hallgrímssonar í jamaíska landsliðinu, í vináttulandsleik í New York.

Nýja gælunafnið hefur sést á samfélagsmiðlum undanfarið en þeir Rodrigo De Paul og Papu Gómez, sem spila með Messi í argentínska landsliðinu, notuðu það báðir þegar þeir skrifuðu athugasemdir við færslu á Instagram-síðu Messis.

„Annað frábært kvöld með landsliðinu. Takk aftur fyrir stuðninginn!“ skrifaði Messi eftir 3-0 sigur gegn Hondúras um helgina þar sem hann skoraði tvö mörk.

„Svona getur mörðurinn bitið,“ skrifaði De Paul og Gomez skrifað: „Mörðurinn er brjálaður!“

Miðað við þetta er alla vega létt yfir argentínska hópnum sem er á meðal þeirra sem spáð er mikilli velgengni á HM í Katar í vetur. Liðið byrjar þar á leik við Sádi Arabíu 22. nóvember.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.