Innlent

Finnst fá­rán­leg kenning að maðurinn tengist öfga­hópum

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Aðgerðir lögreglu og sérsveitar á miðvikudag voru gríðarlega umfangsmiklar. Leitað var í níu húsum að vopnum og gögnum sem gætu tengst málinu.
Aðgerðir lögreglu og sérsveitar á miðvikudag voru gríðarlega umfangsmiklar. Leitað var í níu húsum að vopnum og gögnum sem gætu tengst málinu. Aðsent

Að­stand­endur eins þeirra sem situr í gæslu­varð­haldi grunaður um að undir­búa hryðju­verk kannast alls ekki við að hann hafi að­hyllst öfga­kennda hug­mynda­fræði eða átt í nokkrum sam­skiptum við er­lenda pólitíska öfga­hópa. Mennirnir tveir eru grunaðir um stór­fellda fram­leiðslu á skot­vopnum, meðal annars með þrí­víddar­prentara, og sölu á þeim.

Mennirnir voru hand­teknir í að­gerðum lög­reglu og sér­sveitar á mið­viku­dag á­samt tveimur öðrum sem var sleppt úr haldi skömmu síðar. Annar þeirra hefur verið úrskurðaður í einnar viku gæslu­varð­hald en hinn í tveggja vikna gæslu­varð­hald.

Sam­kvæmt heimildum frétta­stofu hafði annar þeirra verið hand­tekinn á þriðju­dag fyrir viku í tengslum við rann­sókn lög­reglu á fram­leiðslu og sölu skot­vopna. Hann hlaut þá viku­langt gæslu­varð­hald og var látinn laus síðasta þriðju­dag.

Eftir það virðast mennirnir hafa hafið sam­skipti sín sem lög­regla telur benda til þess að þeir hafi verið að skipu­leggja hryðju­verk. Hún hefur fylgst vel með mönnunum og sam­skiptum þeirra lengi en á mið­viku­dag fer hún í þær um­fangs­miklu að­gerðir sem greint hefur verið frá. Heimildir frétta­stofu herma að í sam­skiptum mannanna hafi meðal annars verið rætt um „fjölda­morð“ í sam­hengi við lög­reglu og stofnanir ríkisins.

Lög­regla hafði þá þegar grun um að mennirnir byggju yfir gríðar­legu magni skot­vopna og greip því sam­stundis inn í.

Alls var farið í hús­leit á níu stöðum, meðal annars á heimilum mannanna tveggja. Hald var lagt á tugi skot­vopna og þúsundir skot­færa en einnig þrí­víddar­prentara sem mennirnir eru grunaðir um að hafa fram­leitt vopnin með.

Einnig hefur frétta­stofa heimildir fyrir því að skot­vopn föður annars þeirra hafi verið hand­lögð en hann leigði og bjó með syni sínum. Þau skot­vopn voru geymd í byssu­skáp á heimili þeirra.

Frétta­stofa hefur verið í sam­skiptum við nokkra sem tengjast vel öðrum manninum. Þeir þver­taka fyrir að hann hafi að­hyllst öfga­kennda hug­mynda­fræði eða átt í nokkrum sam­skiptum við öfga­hópa af neinu tagi. Þeim finnst sú hug­mynd raunar hlægi­leg.

Allt bendir til að mennirnir hafi mun frekar tengingu inn í undir­heima landsins heldur en við nokkra öfga­hópa þó lög­regla rann­saki hvort ein­hver fótur sé fyrir slíkum kenningum.

Þrívíddarprentarar misnotaðir

Þetta er í annað skipti sem þrí­víddar­prentuð skot­vopn spila stóran þátt í rann­sókn lög­reglu.

Í febrúar á þessu ári fjallaði frétta­stofa ítar­lega um hvernig þessi nýja tækni væri mis­notuð hér á landi til að prenta byssur. Það var í kjöl­far skot­á­rásar sem framin var í bíla­stæða­húsi við Berg­staða­stræti þar sem ís­lenskur karl­maður var skotinn í brjóstið með þrí­víddar­prentaðri byssu.

Lögregla vildi ekki greina frá því í sam­tali við frétta­stofu í dag hvort málin tengist beint.

Hér má sjá innslag fréttastofu frá því í febrúar um þvívíddarprentuð vopn:


Tengdar fréttir

Grunaðir um að undirbúa hryðjuverk

Tveir hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald eftir umfangsmiklar aðgerðir lögreglu á höfuðborgarsvæðinu í dag. Lögreglu grunar að mennirnir hafi haft í hyggju að undirbúa hryðjuverk hér á landi sem áttu að beinast gegn borgurum og stofnunum ríkisins. 

Norður­vígi segist ekki tengjast hand­tökunum

Nýnasistasamtökin Norðurvígi sem einnig eru þekkt sem Norræna mótstöðuhreyfingin hefur neitað því að tengjast öfgahópum og það sé ekki fólk innan samtakanna sem ætli sér að fremja hryðjuverk.

Stóralvarlegt ef mikið vopnabúr fylgi öfgafullum skoðunum

Það er eitt að hafa skoðanir en það er stóralvarlegt og getur leitt af sér mikinn skaða ef því fylgir að búið sé að safna miklu vopnabúri, segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, aðspurð um hvort að hún hafi áhyggjur af því að öfgafullar skoðanir og viðhorf hafi hreiðrað um sig hér á landi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.