Umfjöllun og myndir: Ís­land - Tékk­land 1-2 | Strákarnir í brekku fyrir seinni leikinn

Andri Már Eggertsson skrifar
Dagur Dan Þórhallsson í leik dagsins
Dagur Dan Þórhallsson í leik dagsins Vísir/Diego

Íslenska landsliðið 21 árs og yngri mátti þola 2-1 tap gegn Tékklandi í umspili um sæti á Evrópumótinu á næsta ári. Ísland komst yfir en gestirnir svöruðu með tveimur mörkum og leiða með einu marki fyrir síðari leik einvígisins sem fram fer í Tékklandi á þriðjudaginn.

Leikurinn fór rólega af stað og voru leikmenn vel meðvitaðir um að þetta væri fyrri leikur í umspili um sæti á EM næsta sumar. Tékkland fékk fyrsta færi leiksins þegar Krystof Danek var kominn í gott færi inn í teig Íslands en skot hans framhjá. Íslensku strákarnir komust betur inn í leikinn þegar leið á fyrri hálfleik og höfðu fína stjórn á leiknum en sköpuðu sér lítið af færum fyrstu tuttugu og fimm mínúturnar.

Það dró til tíðinda á 25. mínútu þegar Sævar Atli Magnússon fiskaði víti. Sævar gerði vel í að vinna boltann á vallarhelmingi Tékklands og reyndi að koma boltanum fyrir markið en Martin Vitík fékk boltann í hendina að mati dómarans sem flautaði víti. Eftir endursýningu var þetta ansi ódýrt víti þar sem hann var með hendina upp við líkamann. Sævar Atli fór sjálfur á punktinn og skoraði.

Sævar Atli skorar af öryggi ...Vísir/Diego
... og fagnaði að hætti hússins.Vísir/Diego

Tæplega sjö mínútum eftir mark Sævars jöfnuðu gestirnir frá Tékklandi. Krystof Danek átti sendingu á Matej Valenta sem fékk allan tímann í heiminum til að athafna sig inn í teignum og renndi boltanum í fjærhornið.

Fleiri urðu mörkin ekki í fyrri hálfleik og var staðan jöfn 1-1. Gestirnir frá Tékklandi mættu ákveðnari í síðari hálfleik og voru með mikla yfirburði úti á vellinum en íslenska vörnin stóð af sér pressu Tékklands af sér til að byrja með. Sóknarleikur Íslands var hugmyndasnauður og gerðist ekkert á síðasta þriðjungi. Davíð Snorri Jónasson, þjálfari liðsins, reyndi að hrista upp í sóknarleiknum með því að gera tvær breytingar eftir tæplega 65 mínútna leik.

Orri Steinn Óskarsson var einn þeirra sem kom inn af bekknum.Vísir/Diego

Daniel Fila misnotaði dauðafæri þegar hann var kominn einn í gegn en Hákon Rafn lokaði á hann. Sókn Tékklands var hins vegar ekki búin. Gabriel fékk boltann á hægri kantinum þar átti hann fyrirgjöf inn í teiginn þar reis Václav Sejk hæst og skallaði boltann í netið.

Sóknarleikur Íslands batnaði eftir skiptingar ásamt því að hafa fengið á sig mark. Ísland náði að skapa sér færi undir lokin en Tékkarnir voru allir komnir bak við boltann til að verjast sem skilaði sér og niðurstaðan 2-1 sigur Tékklands.

Ísland reyndi að dæla boltanum inn á teig Tékklands undir lok leiks.Vísir/Diego

Af hverju vann Tékkland?

Tékkland stjórnaði leiknum á löngum köflum og var sigurinn verðskuldaður. Ísland fékk færi til að jafna leikinn undir blálokin en marki yfir voru Tékkar þéttir og vörðust með alla menn fyrir bak við boltann.

Hverjir stóðu upp úr?

Andri Fannar Baldursson átti fínan leik í dag.Vísir/Diego

Václav Sejk, leikmaður Tékklands, var öflugur á hægri kantinum og tók mikið til sín. Václav Sejk skoraði síðan sigurmark Tékklands sem gerði útslagið. Dagur Dan Þórhallsson og Andri Fannar Baldursson voru öflugir á miðjunni og voru mikið í boltanum.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur Íslands var lélegur sérstaklega áður en Davíð Snorri gerði breytingar á 65. mínútu. Brynjólfur Andersen var mjög einangraður frammi og gerði lítið sem ekkert. Í sigurmarki Tékklands fékk Gabriel allt of langan tíma til að munda hægri fótinn og koma boltanum yfir markið.

Brynjólfur Andersen Willumsson í leik kvöldsins. Vísir/Diego

Hvað gerist næst?

Seinni umspilsleikurinn verður spilaður á þriðjudaginn klukkan 16:00 í Tékklandi.


Tengdar fréttir

„Fengum á okkur tvö ódýr mörk og það skildi liðin að“

„Þetta var eiginlega bara stál í stál en þeir refsuðu okkur betur, tóku þau færi sem þeir fengu,“ sagði fyrirliðinn Brynjólfur Andersen Willumsson eftir súrt 2-1 tap Ú-21 árs landslið Íslands gegn Tékklandi í fyrri leik liðanna um sæti á Evrópumótinu sem fram fer á næsta ári.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.