Erik Mose, yfirmaður sérstakrar rannsóknarnefndar Sameinuðu þjóðanna í ÚKraínu, tjáði mannréttindaráði SÞ í dag að gögn sem nefndin hefði aflað sýndi að stríðsglæpir hefðu verið framdir í landinu. Tiltók hann ekki hver bæri ábyrgð á glæpunum en nefndin hefur beint kröftum sínum að svæðum sem Rússar hertóku tímabundið, þar á meðal Tsjernihiv, Kharkív og Súmíj.
Reuters-fréttastofan segir að nefndin hafi séð merki um fjöldaaftökur, þar á meðal lík sem voru með bundnar hendur og höfðu verið skorin á háls eða skotin í höfuðið.
Fórnarlömb kynferðisofbeldis sem rannsakendur ræddu við voru á aldrinum fjögurra til 82 ára. Mose sagði að vísbendingar væru um að einhverjir rússneskir hermenn hefðu beitt kynferðisofbeldi á kerfisbundinn hátt þá hefði ekki verið sýnt á almennt mynstur af því tagi.
Mose segist hafa verið í sambandi við Alþjóðasakamáladómstólinn um niðurstöður nefndarinnar. Hún á að skila mannréttindaráðinu skýrslu um störf sín í mars á næsta ári.
Rússnesk stjórnvöld hafa þvertekið fyrir að hafa fremja stríðsglæpi í Úkraínu. Enginn fulltrúi þeirra var viðstaddur fund mannréttindaráðsins í dag.
Nefndin ætlar næst að skoða ásakanir um fangabúðir á hernámssvæðum Rússa þar sem úkraínskum föngum er haldið og fullyrðingar um að fólk hafi verið flutt nauðungaflutningum og úkraínsk börn jafnvel verið ættleidd til Rússlands.
Úkraínsk stjórnvöld hafa krafist þess að nefndin kanni nýjar ásakanir um stríðsglæpi Rússa nærri borginni Izium í austanverðu landi. Hundruð líka hafa fundist í fjöldagröf þar.