Erlent

Afboðuðu viðtal við forseta Íran vegna slæðukröfu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Amanpour deildi þessari mynd í gær, af viðtalinu sem ekki varð.
Amanpour deildi þessari mynd í gær, af viðtalinu sem ekki varð. Mynd/Christiane Amanpour

Bandaríski fréttamiðillinn CNN afboðaði viðtal við Ebrahim Raisi, forseta Íran, eftir að hann krafðist þess að sjónvarpskonan Christiane Amanpour klæddist höfuðslæðu í viðtalinu. 

Amanpour sagði forseta Íran aldrei hafa krafist þessa áður, þegar rætt væri við þá utan Íran. Hún sagði einn aðstoðarmanna forsetans hins vegar hafa sagt að þeir vildu að hún bæri höfuðslæðu vegna ástandsins heima fyrir.

Ástandið sem vísað er til eru gríðarleg mótmæli sem hafa staðið yfir eftir að kona lést eftir að hafa verið handtekin af siðferðislögreglu landsins fyrir meint brot gegn slæðulögunum.

Lögregla hefur haldið því fram að hin 22 ára Mahsa Amini hafi látist sökum hjartasjúkdóms en hún andaðist eftir að hafa verið í dái í þrjá daga. Fregnir herma hins vegar að lögregla hafi barið hana með kylfum og þá hafi höfði hennar verið skellt utan í lögreglubifreið.

Mótmælin hafa nú staðið yfir í sjö daga og náð til 80 borga og bæja. Allt að 30 eru sagðir hafa látið lífið en mótmælendur hafa meðal annars ráðist gegn lögreglubifreiðum og -stöðvum.

Konur hafa fjarlægt höfuðslæður sínar, brennt þær og skorið hár sitt.

Opinberlega hefur Raisi kallað eftir rannsókn á dauða Amini en í ágúst síðastliðnum undirritaði hann tilskipun þar sem kveðið er á um sekt og jafnvel ráðgjöf fyrir þær konur sem neita að bera höfuðklút. Þá má lögregla fangelsa þá sem mæla gegn slæðulögunum.

Þess ber að geta að erlendum miðlum ber ekki saman um það hvort það var forsetinn eða Amanpour sem gekk frá viðtalinu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×