Fótbolti

Segir ekki rétt að þau hafi einfaldlega látið af störfum: „Við vorum rekin!“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Rakel Logadóttir og Jón Steindór Þorsteinsson tóku við Fylki í október á seinasta ári.
Rakel Logadóttir og Jón Steindór Þorsteinsson tóku við Fylki í október á seinasta ári. Facebook/Íþróttafélagið Fylkir

Rakel Logadóttir og Jón Steindór Þorsteinsson tóku við kvennaliði Fylkis í október á seinasta ári. Þau voru látin fara frá félaginu fyrr í dag, en Rakel segir það ekki rétt að þau hafi einfaldlega „látið af störfum.“

Rakel og Jón skrifuðu undir tveggja ára starfssamning við Fylki í fyrra eftir að liðið féll úr efstu deild. Liðið hafnaði hins vegar aðeins í sjötta sæti Lengjudeildarinnar á nýafstöðnu tímabili og voru Rakel og Jón því látin fara. Var þetta tilkynnt á samfélagsmiðlum Fylkis eins og sjá má hér fyrir neðan.

Þar kemur einnig fram að Fylkir sé nú í leit að nýju þjálfarateymi og að það muni skýrast á næstu vikum hver tekur við keflinu af Rakeli og Jóni.

Eins og gengur og gerist birtu hinir ýmsu miðlar greinar um starfslok þeirra Rakelar og Jóns. Lesa mátti bæði á Fótbolti.net og mbl.is að þau hafi einfaldlega látið af störfum.

Rakel birti hins vegar færslu á Twitter-síðu sinni í kvöld þar sem hún virðist eitthvað ósátt við orðavalið í greinunum, sem og í yfirlýsingu Fylkis.

„Við létum ekkert af störfum. Við vorum rekin! Hressandi!“ skrifaði Rakel og virðist þar með vera að benda á að hún og Jón hafi ekki sjálfviljug sagt starfi sínu lausu eins og einhverjir gætu skilið yfirlýsinguna, heldur hafi knattspyrnudeild Fylkis gert þeim að taka poka sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×