Innlent

Krabbameinsdeildin löngu sprungin og engin lausn á borðinu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Vigdís Hallgrímsdóttir, forstöðumaður krabbameinskjarna Landspítalans.
Vigdís Hallgrímsdóttir, forstöðumaður krabbameinskjarna Landspítalans. Skjáskot/Stöð 2

Krabbameinsdeild Landspítalans er löngu sprungin og engar lausnir í sjónmáli, segir Vigdís Hallgrímsdóttir, forstöðumaður krabbameinskjarna spítalans, í samtali við Fréttablaðið. Hún segir aðstöðuna á deildinni langt í frá ásættanlega og að veikt fólk geti ekki beðið.

Eins og staðan sé í dag liggi engar áætlanir fyrir um úrbætur en úttekt á eldra húsnæði spítalans sé enn í vinnslu og óvíst hvenær niðurstaða sé að vænta. Þó sé ljóst að töluvert mörg ár séu þar til varanleg lausn verði í hendi. 

„Við verðum að reyna að hugsa einhverja millilausn fyrir þessa deild og við verðum að skoða hvar henni verður best fyrir komið til framtíðar. Við getum varla beðið eftir því að endurgerð eldra húsnæðis hefjist eða klárist og það verði búið að byggja nýtt dag- og göngudeildarhús. Það er of langt inn í framtíðina fyrir þessa deild,“ segir Vigdís.

Vigdís segir að eins og er hafi deildin ekki þá aðstöðu sem þarf að vera til staðar til að geta veitt alla nauðsynlega þjónustu. Sjúklingar fái ekki næði og þá sé ekki hægt að uppfylla kröfur um sýkingavarnir. Einnig sé umgjörð um mikil fjarsamskipti sem deildin á við sjúklinga ófullnægjandi.

Umfjöllun Fréttablaðsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×